Bílastæðahegðun rannsökuð
Fræðimenn hjá sænsku vegamálastofnuninni VTI rannsaka um þessar mundir venjur fólks þegar það leggur bílum sínum. Þeir hafa tekið fólk tali í þremur bílastæðahúsum í miðborg Linköping og spurt hversvegna það leggi þar, hversu oft og hvað það myndi gera ef það gæti ekki lagt þarna lengur.
„Nú ríkir sú tilhneiging að fækka bílastæðum í miðborgum, segir Malin Henriksson hjá VTI í samtali við Motormagasinet. Borgaryfirvöld vilji draga sem mest úr því að vinnandi fólk komi akandi til vinnu og bílar þeirra taki upp stæði yfir daginn. Þau vilji heldur að stæðin nýtist almennum ferðamönnum og íbúunum. Hún segir að löng hefð sé fyrir því að þeir sem starfi í miðborgum en búi í úthverfum komi á bílum sínum til vinnu og geymi þá yfir vinnudaginn í bílastæðahúsunum. Rannsóknin beinist m.a. að því að finna hvað hafi breyst og hversvegna og hvernig framtíðarskipulag bílastæðamála skuli verða.
Niðurstaðna er að vænta í maí 2016.