Drykkju- og aksturstilraunir á vegum Ford
06.12.2005
Ford í Bretlandi hefur staðið að merkilegum aksturstilraunum undir áhrifum áfengis í því skyni að mæla aksturshæfni og hvort og hvernig hún breytist með vaxandi áfengisáhrifum á ökumanninn. Niðurstöðurnar eru ótvírætt þær að venjulegir ökumenn verða því verri til aksturs sem áfengisáhrif vaxa.
Tilraunirnar fóru fram þannig að ökumaður var látinn innbyrða fyrirfram mælt áfengi, bíða svo eftir að áfengið tæki að hafa áhrif og fara síðan í ökuferð inni á lokuðu aksturssvæði þar sem hann skyldi takast á við dæmigerðar akstursaðstæður. Tilraunin var svo endurtekin nokkrum sinnum eftir að ökumaðurinn hafði innbyrt enn meira áfengi fyrir hverja aksturstilraun. Í síðustu ökuferðinni var áfengismagnið í blóði ökumannsins orðið 150% umfram lögleyfð mörk.
Ökumaðurinn var látinn leysa ýmsar þrautir og takast á við tilbúnar aðstæður líka þeim sem upp geta komið í daglegum akstri. Eftir því sem áhrif áfengisins jukust tókst honum verr og verr upp, viðbrögð hans urðu seinni og nákvæmni og geta hans rýrnaði.
Ökumaðurinn sem tók þátt í tilrauninni heitir Oliver Rowe. Hann segir við fréttamann Reuters að honum hafi fundist biðin eftir því að áfengið svifi á sig ansi löng stundum. Þá hefði dómgreindin sljóvgast. „Hefðu þeir spurt mig eftirt fyrstu tvo klukkutímana sem tilraunin stóð, hvort ég teldi að ég væri í ökuhæfu ástandi, hefði ég sagt já. En mælingarnar sýndu svart á hvítu hversu viðbragðstíminn var fljótur að lengjast, þótt ég fyndi varla neitt á mér og það sýndi sig sannarlega í sjálfum akstrinum.“ Hann segir jafnframt að eftir því sem hann varð fyllri hefði sjálfstraustið vaxið í öfugu hlutfalli við rýrnandi getu til aksturs. Hinn vaxandi dómgreindarskortur hefði komið fram í stöðugt djarfara aksturslagi og versnandi getu við að leysa þrautir eins og að aka í kröppu svigi milli stilka og halda jöfnum hraða gegn um þrautirnar.
Kevin Delaney er öryggisrágjafi breska bifreiðaeigenafélagsins Royal Automobile Club. Hann segir að þessi tilraun Ford sýni áþreifanlega þær hættur sem kendiríis- og fylliríisakstur hefur í för með sér. „Áfengi, jafnvel í litlu magni, hefur þau áhrif að dómgreindin stórversnar þannig að trúin á eigin getu vex samtímis því að aksturshæfnin fer veg allrar veraldar. Það er hættuleg blanda,“ segir Kevin Delaney