Framtíðarbíll Honda

Japanski bílaframleiðandinn Honda hefur aflað sér mikillar reynslu með efnarafala í rafbílum enda prófað sig áfram, rannsakað og gert tilraunir um langt árabil. Um áratugur er síðan allmörg eintök tilraunabílsins BC fóru til valinna notenda til daglegs brúks. Árið 2008 kom svo FCX Clarity fram. Hann var á sinn hátt endurnýjaður BC bíll en mun hagkvæmari í alla staði og líkari venjulegum bíl í notkun og akstri en gamli BC bíllinn.

En nú sýnir Honda í Tokyo nýjan efnarafalsbíl sem segja má að sé þriðja stóra skrefið á eftir BS og FCX Clarity. Hann nefnist FCV Concept og er sagður vera nokkurnveginn sá efnarafalsbíll sem á að fara í fjöldaframleiðslu og á almennan markað í Japan vorið 2016 og þar á eftir í Bandaríkjunum og Evrópu. Bíllinn verður líklega sýndur á bílasýningunni í Los Angeles sem opnuð verður nk. fimmtudag og mun ef af verður, keppa um athygli sýningargesta við Toyota Mirai efnarafalsbílinn svipað og hann gerir nú á bílasýningunni í Tokyo.

http://fib.is/myndir/PowerExporter.jpg
Með nýja FCV bílnum mun fylgja rafgeymakassi
sem kallast Honda Power Exporter. Hægt er að
hlaða rafmagni frá bílnum á þennan kassa og
nota síðan til ljósa, t.d. í sumarbústaðnum eða
í tjaldútilegunni.

En bíllinn sem boðaður er á markað 2016 er rúmgóður fimm sæta bíll. Afl- og drifbúnaður hans er ekki stór um sig en það mun þýða að rúmt verður um fólkið og farangurinn í bílnum. Aflið verður 100 kW (136 hö). Efnarafallinn er 33 prósentum minni um sig en sá sem er í FCX Clarity en samt um 60 prósent afkastameiri. Drægið á hverjum vetnistanki er sagt verða rúmlega 500 kílómetrar og enduráfylling tekur 3-5 mínútur.