Kínastjórn losar um sjálfdæmi bílaframleiðenda
Meira að segja sjálft forræðisríkið Kína leitast nú við að frelsa eftirmarkaðinn fyrir bílavarahluti og bílaþjónustu úr viðjum einkaréttar bílaframleiðandanna og fara svipaða leið og farin hefur verið í Evrópu. Þar máttu bílaframleiðendur lengi einoka þjónustu og sölu varahluta í krafti einkaleyfa á nýjum bílum og einstökum hlutum þeirra um lengri eða skemmri tíma og verðlagt þjónustuna nokkurnveginn að geðþótta. Síðustu ár hefur mjög verið slakað á þessum viðjum og hefur það leitt til mjög aukinnar samkeppni, meira úrvals og lægra varahluta- og þjónustuverðs.
Nú vill Kínastjórn slaka á þeim stífu reglum sem þar hafa gilt um bílaeftirmarkaðinn og hindra að eðlileg samkeppni geti þrifist. Þetta hyggst stjórnin gera með því að opna frjálsan aðgang að tækniupplýsingum um bíla og veita fleiri óháðum bílaverkstæðum, framleiðendum og söluaðilum varahluta starfsleyfi. Með þessu vilja yfirvöld stuðla að verðlækkandi samkeppni á þessum sviðum.
Meginástæða þessarar kúvendingar er verðkönnun sem gerð var á varahlutaverði og verkstæðisþjónustu fyrir helstu bílategundirnar í Kínaveldi. Meðal þeirra sem tegunda sem koma illa út úr þessari könnun voru Daimler (Mercedes Benz) og Nissan. Þjónusta og verð varahluta í þessar tegundir reyndist í hæstu hæðum. Lítið skárri reyndist verðlagningin hjá BMW að öðru leyti en því að verð nýrra bíla hafði verið lækkað en verð á varahlutum og þjónustu hafði verið hækkað eins og til að ná verðlækkuninni til baka með því móti.