Rafmagns-Kangoo
Á hluthafafundi Renault í París í gær var frumsýndur rafbíllinn Kangoo be bop Z.E. Vél- og drifbúnaður sem og rafgeymar er svipað og verður í fjöldaframleiddum Renault rafbílum sem koma eiga á almennan markað árið 2011. En sýningarbíllinn í París og sjálfsagt nokkrir aðrir svipaðir verða á næstu dögum sendir af stað út um alla Evrópu til sýningarhalds og reynsluaksturs.
Þessi rafmagns-Kangoo er lítilsháttar öðruvísi í útliti en hefðbundinn Kangoo vegna þess að leitast hefur verið við að draga úr loftmótstöðu hans. Til að spara rafmagnið eru fram- og afturljósin ekki með hefðbundnum halogen perum heldur díóðum sem nota mjög lítið rafmagn miðað við það ljós sem þær megna að gefa frá sér. Á hliðum bílsins eru síðan díóðuljós í röð sem sýna hversu mikið rafmagn er eftir á geymunum þegar ökumaður ýtir á takka á fjarstýringunni sem opnar og læsir dyrum bílsins.
Rafmagns-Kangoo bíllinn er hreinn rafbíll – ekki tvinnbíll. Rafmótorinn í honum er 44 kílówatta (60 ha) og nær 12 þúsund snúningum á mínútu. Tölvustýring sér um að miðla raforku til mótorsins miðað við álag hverju sinni (og frá honum til geymanna þegar mótorinn heldur við niður brekkur eða þegar hemlað er).
Liþíum-rafgeymarnir eru framleiddir hjá AESC sem er dótturfyrirtæki Nissan og rafhlöðuframleiðandans NEC og sem stofnað var í aprílmánuði 2007. Rýmd geymanna er 15 kílówattstundir sem nægir til 100 km aksturs. Þegar bíllinn kemur í fjöldaframleiðslu árið 2011 verða hins vegar stærri geymar í honum með orkurýmd sem dugar til 160 km aksturs. Áætluð ending geymanna er samkvæmt frétt frá Renault þannig að þeir eiga að halda fullum afköstum í sex ár.
Hleðslutími miðað við nánast tóma geyma er sex til átta klst. sé stungið í samband við venjulegan heimilistengil. Sé hins vegar stungið í samband við 32 ampera 400 volta, þriggja fasa tengil er hleðslutíminn um 30 mínútur.