Tveir nýir veltibílar frá VW

 http://www.fib.is/myndir/VW-logo-.jpg
Volkswagen verksmiðjunar og Hekla hafa undirritað samning um áframhaldandi samstarf um umferðaröryggismál á Íslandi við Brautina – bindindisfélag ökumanna, Sjóvá, Umferðarstofu og Forvarnahús. Samstarfið felur meðal annars í sér að Volkswagen verksmiðjurnar gefa til landsins tvo nýja veltibíla sem notaðir verða til að kynna mikilvægi öryggisbelta fyrir bílastjóra og farþega.

Bílarnir tveir verða annars vegar í eigu Forvarnahússins og hins vegar í eigu Sjóvá, Brautarinnar og Umferðarstofu. Þeir verða nýttir við ökukennslu og umferðarfræðslu fyrir ökunema um allt land. Hekla mun sjá um þjónustu við veltibílana á samningstímanum.

Samstarf Volkswagen og þessara aðila nær aftur til ársins 1995 þegar fyrsti veltibíllinn kom til landsins. Veltibíllinn sem núna er í notkun er sá þriðji í röðinni. Bíllinn er núna á Akureyri þar sem yfir 500 grunnskólanemar hafa reynt hann í umferðarfræðslu síðustu 5 dagana. Alls hafa 60.000 þúsund manns prófað núverandi veltibíl frá því hann var tekinn í notkun árið 2005.

Thomas Zahn, yfirmaður sölu og þjónustumála undirritaði samninginn fyrir hönd Volkswagen. Hann sagði við það tækifæri að öryggismál væru eitt þeirra megingilda sem lögð væru til grundvallar í allri starfsemi Volkswagen. Allir nýir bílar frá Volkswagen uppfylla ströngustu kröfur um öryggi og þeir eru nú búnir ýmsum nýjungum og enn meiri staðalöryggisbúnaði en áður. Þannig má nefna að nýjasta kynslóð Golf sem kynnt var hér á landi um helgina er meðal annars með aðvörunarbúnað sem lætur bílstjóra vita ef  aftursætisfarþegar eru ekki spenntir í belti.

Páll H. Halldórsson formaður Brautarinnar sagði að nýir samningar um veltibíla væru afar mikilvægir fyrir þá sem að verkefninu kæmu. „Brautin hefur átt mikið og gott samstarf við Heklu og nýtt samkomulag er staðfesting á því góða starfi sem unnið hefur verið síðustu misseri. Áhugi á að prófa veltibílinn er mikill og þegar hann er í notkun erum við starfsmenn Brautarinnar og Forvarnahússins afar stoltir í hvert sinn sem myndast röð áhugasamra sem vilja prófa bílinn,“ segir Páll.

Sjóvá er meðal eigenda Forvarnahússins og segir Þór Sigfússson forstjóri að athuganir sýni að ungmenni sem farið hafa í gegnum umferðafræðslu Forvarnahússins séu öruggari bílstjórar en aðrir jafnaldrar þeirra og því líklegir til að valda færri tjónum og lenda sjaldnar í slysum. „Í þessu forvarnastarfi gegna veltibílarnir mikilvægu hlutverki og því fögnum við þessum stuðningi við forvarnarstarf í umferðinni,“ segir Þór Sigfússon.

Birgir Hákonarson, framkvæmdastjóri Umferðaröryggissvið Umferðarstofu þakkaði við þetta tækifæri Volkswagen og Heklu fyrir framlag þeirra til umferðaröryggismála. „Án veltibílanna hefði ekki verið hægt að sýna almenningi fram á mikilvægi öryggisbelta á jafn áhrifaríkan hátt. Með þessu er tryggt að það verður áfram hægt næstu árin,“ segir Birgir.

Knútur G. Hauksson, forstjóri Heklu sagðist vera mjög ánægður með stuðning Volkswagen verksmiðjanna við þetta málefni. „Veltibílarnir munu örugglega koma í mjög góðar þarfir hjá Brautinni og Forvarnahúsinu en veltibílarnir hafa átt drjúgan þátt í því hve almenn bílbeltanotkun landsmanna er. Það skiptir miklu máli að börn og ungmenni hér á Íslandi eigi þess kost að prufa veltibílanna og kynnast því af eigin raun hversu mikilvægt öryggistæki bílbeltin eru,“sagði Knútur Hauksson.


http://www.fib.is/myndir/Veltibilar.jpg
Frá undirskrift samningsins. Frá vinstri: Páll Halldórsson formaður Brautarinnar, Birgir Hákonarson Umferðarstofu, Knútur G. Hauksson forstjóri HEKLU, Thomas Zahn frá Volkswagen, Þór Sigfússon forstjóri Sjóvár og Fjóla Guðjónsdóttir frá Forvarnahúsi.