Breytt gjaldtaka af bílum

Breytt gjaldtaka af bílum er meðal þess sem boðað er í fjármálaáætlun 2025 til 2029. Bíleigendur geta gengið að því nokkuð vísu að þurfa að greiða kílómetragjald frá og með næsta ári, óháð því hvers konar bíl þeir nota.

Byrjað var að rukka eigendur rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla um síðustu áramót og eigendur bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti bætast við um næstu áramót.

Viðbúið er að vörugjöld af eldsneyti, bensíngjald og olíugjald lækki verulega eða falli niður. Kolefnisgjald verður áfram lagt á jarðefnaeldsneyti. Að öðru leyti hafa þessar fyrirhuguðu breytingar ekki verið útfærðar. Það ætti að skýrast þegar þegar líður á árið.