„Bakkmyndavélar“ verða lögskyldar í USA
NHTSA; umferðaröryggisstofnun Bandaríkjanna hefur nú sett reglur um að allir nýir bílar sem seldir verða í Bandaríkjunum frá og með árinu 2014 verði með bakkmyndavél, þ.e.a.s myndavél sem sýnir allt svæðið fyrir aftan bílinn á skjá í mælaborði. Um það bil 300 manns, mjög oft börn, láta lífið árlega við það að verða fyrir bakkandi bíl.
Vitað var að NHTSA ætlaði að taka á þessu máli. Flestir bjuggust þó við að stofnunin léti nægja til að byrja með að krefjast skynjara sem gefur frá sér hljóðmerki til ökumanns þegar hindrun er fyrir aftan bílinn. Þá eru margir undrandi á því hversu fljótt á að að innleiða bakkmyndavélarnar. Það verður gert þannig að strax í september 2012 verða 10 prósent nýrra bíla að vera búnir bakkmyndavél. Ári síðar, í september 2013 eiga 40 prósent að vera með búnaðinn og 2014 hver og einn einasti nýr bíll.
Ástæða þessarar innleiðingar er mikill fjöldi slysa og óhappa sem verða þegar bílum er bakkað. En útsýni aftur fyrir bíla er nokkuð mis gott eða slæmt. Consumer Reports.org hefur prófað afturútsýnið úr rúmlega 400 bílategundum og –gerðum. Þetta ver gert á þann hátt að lágvaxin manneskja (155 sm há) var sett undir stýri bílanna. Útsýn aftur fyrir bílinn fyrir hinn smávaxna ökumann reyndist best, eða frá 150-240 sm aftan við bílana í t.d. Mazda Miata, Saturn Sky, Smart Fortwo og Volvo C30. Eins og við mátti búast var afturútsýnin afleit úr pallbílum með lokaðan afturhlerann. Þar sást ekkert fyrr en allt að 12 metrum aftan við bílinn.