Fisker fær ríkislán
Bandaríska bílafyrirtækið Fisker sem er í eigu og undir stjórn Henriks Fisker, danska bílahönnuðarins sem áður hannaði Aston Martin DB9, BMW og fleiri glæsibíla, hefur fengið 529 milljón dollara ríkislán frá orkumálaráðuneytinu sem verja á til að þróa hagkvæma tengiltvinnbíla handa almenningi.
Fisker Karma. Fjöldaframleiddur í Finnlandi frá áramótum. |
Með nýjum Bandaríkjaforseta eru útblástursmálin og eldsneytissparnaður kominn á dagskrá í Bandaríkjunum og í vor fékk rafbílasmiðjan Tesla 465 milljóna dollara lán frá bandaríska orkumálaráðuneytinu til þess að þróa áfram Tesla S bílinn sem verður ódýrari og hagkvæmari en ofursportbíllinn Tesla Roadster.
MInnihluti lánsupphæðarinnar til Fisker, eða 163 milljónir dollara, verður varið til að koma framleiðslunni á lúxusbílnum Fisker Karma af stað en afganginum og stærsta hluta lánsins verður varið til þess að þróa nýjan og ódýrari tvinnbíl sem hlotið hefur vinnuheitið Project Nina. Reiknað er með að nýi bíllinn muni kosta um 45 þúsund dollara sem er um helmingurinn af því sem Fisker Karma mun kosta þegar hann rennur fullskapaður af færiböndunum hjá Valmet í Finnlandi upp úr næstu áramótum.
Hinn nýi Project Nina bíll Fiskers verður sem fyrr segir framleiddur í Detroit. En einhverjum gæti það þótt skjóta skökku við að hluta stjórnarlánsins til Fiskers skuli varið til að setja framleiðsluna á Fisker Karma í gang í Finnlandi. Ekki er þó allt sem sýnist því að 65 prósent af hlutunum í bílinn verða framleiddir í Bandaríkjunum hjá þarlendum undirframleiðendum. Bandarísk stjórnvöld reikna með því að þannig verði til um fimm þúsund störf (eða í það minnsta glatist ekki) í bandaríska bílaiðnaðinum.