Misnotuð ríkismeðgjöf í Svíþjóð

Sænska samgönguráðuneytið greiddi söluaðilum ofur-umhverfismildra bíla samtals 167 milljónir ísl. króna í meðgjöf vegna bíla sem áttu að fara út í sænsku umferðina til að auka hlutfall slíkra bíla þar. Meðalmeðgjöf með hverjum bílanna var tæplega 630 þúsund ísl. kr. Þessir umhverfismildu bílar, 266 talsins, voru hins vegar seldir úr landi strax og meðgjöfin hafði verið greidd út. Motormagasinet í Svíþjóð greinir frá þessu

Reglugerð um sérstaka meðgjöf eða ívilnun við kaup á mjög umhverfismildum bílum, eins og rafbílum og vetnisrafbílum tók gildi í Svíþjóð þann 1. janúar 2012. Veitt var til þessa tiltekinni upphæð í fjárlögum og var tilgangurinn sá að hækka hlutfall þessara bíla í umferðinni. En um áramótin 2013/2014 kom í ljós að hraðar hafði gengið á þá upphæð sem áætluð hafði verið vegna þessa, en gert hafði verið ráð fyrir. Þá var málið skoðað nánar í heild sinni og um leið kom í ljós  gloppa í reglugerðinni. Hún fólst í því að meðgjöfin var greidd til bílasölu eða fjármögnunarfyrirtækis sem innborgun, en ekki beint til kaupanda eftir að búið var að skrá bílinn á hans nafn.  Bílasölurnar og fjármögnunarfyrirtækin fengu ríkisgreiðsluna í hendur en seldu síðan bílana snarlega úr landi. Í ljós kom að 266 bílar sem búið var að greiða út ríkismeðgjöfina voru bara alls ekki á skrá í Svíþjóð.

Um síðustu áramót hafði meðgjöf verið greidd út með tæplega fimm þúsund bílum frá 1. jan. 2012. Af horfnu bílunum 266 eru rúmur helmingur tengiltvinnbílar af gerðinni Volvo V60. Þau fyrirtæki sem fengið hafa flestar ívilnanna greiddar eru sölufyrirtæki tengd framleiðanda Volvo fólksbíla. Næst stærsti aðilinn í þessu er fjármögnunarfyrirtækið sem heitir Santander. Eftir að hafa fengið ríkismeðgjöfina voru bílarnir síðan seldir úr landi, aðallega til Hollands þar sem eftirspurn var mikil eftir þeim. Reiknað er með að bílasölurnar sem um ræðir verði krafðar um endurgreiðslu þessara fjármuna.