Fréttir

Suðurstrandarvegur í hættu

Hraun rann yfir Grindavíkurveg í nótt og hætt er við að hraun flæði yfir Suðurstrandarveg sem nú er lokaður. Engin ógn er við Nesveg sem stendur. Vegurinn er fær en laskaður eftir fyrri atburði á svæðinu. Vegagerðin fylgist grannt með stöðu mála og beðið er með aðgerðir á meðan enn gýs. Allir vegir til og frá Grindavík eru lokaðir fyrir almenna umferð sem stendur.

Helmingi færri nýskráningar

Bílasala heldur áfram að minnka og fyrstu sjö vikur ársins eru nýskráningar fólksbíla helmingi færri en á sama tíma á síðasta ári. Það sem af er árinu eru nýskráningar fólksbifreiða 1.123 en voru í fyrra 2.248.

Aukinn þungi lagður í hreinsun gatna á síðustu dögum

Hreinsun gatna á stofnæðum á höfuðborgarsvæðinu hófst fyrir tíu dögum síðan. Nú hefur aukinn þungi verið lagður í verkefnið á síðustu dögum. Áfram hefur verið haldið að sópa götur á höfuðborgarsvæðinu en nú verður farið í öll hverfin. Ef allt gengur að óskum er stefnt að því að ljúka því verkefni fyrir eða um helgina.

Litlar breytingar í nýskráningum

Litlar breytingar hafa orðið á nýskráningum fólksbifreiða það sem af er árinu. Bílasala hefur haldist á sama róli og er núna þegar tíu vikur eru liðnar af árinu um 47,6% minni en á sama tímabili í fyrra.

Varasamt ástand vega í Reykhólasveit og Dölum

Ástand Vestfjarðavegar (60) í Reykhólasveit og Dalabyggð er afar bágt eins og áður hefur komið fram að í tilkynningum Vegagerðarinnar. Slitlag hefur farið mjög illa og hefur burðarlag gefið sig á löngum köflum. Það veldur því að stórir kögglar í slitlagi hafa losnað og við það skapast mjög hættulegar aðstæður fyrir ökumenn.

Ný reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra

Um­ferðar­skilti sem tákna lág­marks­hraða, um­ferðartaf­ir, göngu­göt­ur og hjól­arein­ar eru meðal þeirra rúm­lega fjöru­tíu skilta sem verða tek­in í notk­un, auk sér­stakra um­ferðarljósa fyr­ir hjólandi veg­far­end­ur.

Umferðin aldrei mælst meiri í febrúar á höfuðborgarsvæðinu

Umferðin um þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu jókst um 6,7 prósent í febrúar. Aldrei hefur mælst meiri umferð í febrúar. Frá áramótum hefur umferðin aukist um rúm fimm prósent að því er fram kemur í tölum frá Vegagerðinni.

Hreinsun gatna á stofnæðum hófst síðastliðna nótt

Með hækkandi sól fer af stað hreinsun gatna og stíga á höfuðborgarsvæðinu. Hreinsun gatna á stofnæðum á höfuðborgarsvæðinu hófst síðastliðna nótt. Áfram verður haldið á næstu dögum á meðan áfram er milt í veðri eins og veðurspár gera reyndar ráð fyrir.

Aldrei mælst meiri umferð á Hringvegi í febrúar

Umferðin heldur áfram að slá eigin met á Hringveginum. Umferðin í febrúar um 16 lykilsnið Vegagerðarinnar jókst um tæplega 12 prósent. Aldrei áður hefur mælst meiri umferð í febrúar. Athygli vekur að það er umferðin um Suðurland sem eykst mest að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Tímasetningin röng og mögulega er kílómetragjaldið of hátt

Bann við nýskráningum bensín- og dísilbíla tekur í gildi hér á landi 2030. Frá og með þeim tíma eiga allir nýir bílar, fólksbílar, að vera knúnir rafmagni, vetni, metani og eða öðrum orkugjafa sem ekki er sóttur í jörðu. Þetta er sjálfsagt með mestu breytingum í loftslagsaðgerðum stjórnvalda sem almenningur mun finna fyrir. Það voru teknar upp ívilnanir til að greiða fyrir kaupum almennings á rafbílum og fyrir vikið lækkuðu þeir töluvert í verði. Síðan hefur eitt og annað verið gert af hálfu stjórnvalda sem hefur orðið þess valdandi að verð á rafbílum hefur hækkað.