Tillaga FÍB um kílómetragjald á notkun ökutækja
FÍB leggur til að kílómetragjald komi í stað núverandi innheimtu ríkisins af notkun ökutækja. Upphæð gjaldsins fari eftir mengun (losun koltvísýrings) og heildarþyngd ökutækisins. Skattar á bensín og dísil falli þar með niður, svo og bifreiðagjald. Rafknúnir bílar myndu byrja að taka þátt í kostnaði við vegakerfið. Innheimt yrði mánaðarlega í heimabanka bíleiganda í samræmi við áætlun um akstur og/eða álestur á kílómetramæli.
Reiknivél kílómetragjalds
Fyrst þarf að skrá inn losun CO2 og heildarþyngd viðkomandi bíls. Upplýsingar eftir bílnúmerum eru á vef Samgöngustofu. Smelltu hér til að leita.
Athugaðu að skrá inn heildarþyngd. Kílómetragjaldið er hugsað sem blanda af umhverfisgjaldi vegna mengunar og álagsgjaldi vegna þyngdar viðkomandi bíls.
Kostnaður af því að nota bílinn yrði lítið breyttur fyrir flesta eigendur bensín og dísilbíla, enda myndu skattar á eldsneyti falla niður við upptöku kílómetragjaldsins, svo og bifreiðagjald sem er innheimt tvisvar á ári. Áfram yrði rekstur rafknúinna bíla hagkvæmari vegna lægri orkukostnaðar og lægra umhverfisgjalds.
Hvers vegna ræður losun koltvísýrings og þyngd ökutækis kílómetragjaldinu?
- Kílómetragjaldið er hugsað sem hvati til orkuskipta í samgöngum. Losun koltvísýrings (CO2) frá ökutækjum er því áhrifaþáttur í gjaldinu. Engin eða lítil losun þýðir lægra gjald og meiri losun hærra gjald.
- Þyngd ökutækja hefur mest að segja um slit vegakerfisins og þarf kílómetragjaldið því að taka mið af þeim þætti.
Kílómetragjaldið fjármagni viðhald og vegaframkvæmdir
Uppi eru áform um tugmilljarða króna nauðsynlegar nýframkvæmdir í vegakerfinu víða um land á næstu árum, auk reglulegs viðhalds. FÍB telur að fjármögnun nýframkvæmda geti að mestu farið fram gegnum kílómetragjaldið og komið í stað hugmynda um afar kostnaðarsama innheimtu vegatolla og jarðgangagjalda.
Útfærsla og innheimta
Kílómetragjaldið verði innheimt miðað við áætlun/álestur, ekki ósvipað og fyrir rafmagn og hita. Bíleigendum verði boðið að gera áætlun sem er leiðrétt við álestur. Álestur getur farið fram við árlega skoðun, á verkstæðum, sem eigin álestur, við skyndiskoðun, við kaup og sölu, í tjónstilkynningum og jafnvel sjálfvirkt eftir því sem tækninni fleygir fram.
Eigandi ökutækis fengi mánaðarlega bankakröfu frá Skattinum.
Forsendur útreikningsins
Grunnforsendur formúlunnar byggjast á veginni meðallosun koltvísýrings (CO2)allra ökutækja á Íslandi, sem er 152,2 g/km og veginni heildarþyngd allra ökutækja, sem er 2.870 kg. Tölurnar byggja á upplýsingum frá Samgöngustofu. Með þessum grunnforsendum og ákveðnum margföldunarstuðlum verður til kílómetragjald sem FÍB telur að endurspegli með sanngjörnum hætti raunveruleg áhrif af notkun viðkomandi bíls á umhverfið og vegakerfið. Formúlan miðast við að kílómetragjaldið skili sömu tekjum í ríkissjóð af notkun ökutækja og áformuð eru í fjárlögum fyrir 2023, eða um 50 milljörðum króna.
Formúla kílómetragjaldsins
Til að reikna kílómetragjaldið er annars vegar deilt með 152,2 í CO2 losun viðkomandi bíls og útkoman margfölduð með 6 til að finna út umhverfisþáttinn. Hins vegar er deilt með 2.870 í heildarþyngd viðkomandi bíls og margfaldað með 5 í til að finna út álagsþáttinn. Samanlagt mynda umhverfisþátturinn og álagsþátturinn kílómetragjaldið. Reikniformúlan gerir bíleigendum kleift með einföldum hætti að reikna út gjaldið miðað við ekna kílómetra, enda eru upplýsingar um CO2 losun og heildarþyngd bíla aðgengilegar hjá Samgöngustofu. Til að einfalda þetta enn frekar hefur FÍB sett upp reiknivél fyrir kílómetragjaldið á vefsíðunni.
Núverandi tekjustofnar ríkisins af notkun ökutækja
Núverandi tekjustofnar ríkisins af notkun ökutækja eru að mestu skattar á jarðefnaeldsneyti. Þar á meðal má nefna vörugjöld af bensíni, kolefnisgjald, olíugjald af dísilolíu og virðisaukaskatt. Bifreiðagjald er lagt á alla bíla og innheimt tvisvar á ári. Þessi gjöld geta öll fallið inn í kílómetragjaldið. Verð á bensíni og dísilolíu myndi lækka á móti. Á lítra af bensíni nema álögur ríkisins nú 106 krónum og á lítra af dísilolíu um 119 krónum. Engir skattar eru lagðir á afnot hreinorkubíla af vegakerfinu.
Á árinu 2023 gerir ríkið ráð fyrir 10,2 milljarða króna tekjum af vörugjaldi af innflutningi nýrra ökutækja. FÍB leggur ekki til að vörugjaldið verði hluti af kílómetragjaldinu.
FÍB telur ávinningin af upptöku kílómetragjalds ótvíræðan
- Gjaldið endurspeglar umhverfisáhrif viðkomandi ökutækis og álag þess á vegakerfið. Gjaldið mætir þannig fjölmörgum markmiðum sem ekki nást með núverandi og fyrirhuguðum innheimtuaðferðum (vegatollum) af notkun ökutækja.
- Eigendur bíla sem ganga fyrir rafmagni taka virkan þátt í kostnaði við vegakerfið, en halda eftir sem áður hvatanum til notkunar hreinorkugjafa vegna lægra gjalds.
- Kílómetragjald kemur í veg fyrir þörfina á dýrri og umdeildri uppsetningu tollahliða og innheimtu í jarðgöngum. Innheimtukostnaður kílómetragjalds nemur aðeins broti af kostnaði við þau áform.
- Bíleigendur fá betri tilfinningu fyrir aksturskostnaði.
- Kílómetragjald stuðlar að ákveðnum jöfnuði í gjaldtöku af umferðinni og eyðir þörf fyrir sértæka og óhagkvæma innheimtu af þeim sem nota ein umferðarmannvirki umfram önnur.
- Sú reikniformúla sem FÍB leggur til skapar mikinn sveigjanleika til að ná fram markmiðum tekjuöflunar ríkissjóðs í samræmi við þróun bílaflotans næstu ár og áratugi.
Spurt og svarað
Er FÍB að leggja til auknar álögur á bíleigendur?
Nei, tillögur FÍB um kílómetragjald snúast aðeins um að ríkissjóður hafi sömu tekjur af notkun ökutækja sem nota bensín og dísil og áætlaðar eru í fjárlögum. Einnig fari ríkissjóður að fá tekjur af umferð rafknúinna bíla á vegum landsins. Ríkið hefur á hinn bóginn kynnt hugmyndir um nýja gjaldtöku með vegatollum og gangagjöldum. FÍB telur skynsamlegra að þær tekjur verði frekar innheimtar gegnum kílómetragjald, enda er það mun ódýrari innheimtuleið. Engar ákvarðanir hafa verið teknar í þeim efnum.
Hefur FÍB kynnt þessar hugmyndir fyrir stjórnvöldum?
Já, þær hafa verið kynntar fyrir innviðaráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og verkefnastofu um gjaldtöku af samgöngum.
Er ekki ódýrast að láta olíufélögin innheimta gjöldin?
Vissulega er ódýrast fyrir ríkissjóð að láta nokkur olíufélög um að innheimta gjöld jafnóðum og bíleigendur fylla bensín eða dísil á tankinn. En tekjur ríkisins af eldsneytissölu fara hraðminnkandi eftir því sem rafknúnum og sparneytnari bílum fjölgar. Þessi innheimtuaðferð er því deyjandi og tugþúsundir bíla nota vegakerfið án þess að borga fyrir. Þeim bílum fer fjölgandi og því er besta ráðið að skipta um innheimtuaðferð.
Mun ríkið fara að fylgjast með ferðum mínum?
Alls ekki. Fjöldi ekinna kílómetra segir ekkert um hvar eða hvert þú hefur ekið. Ef hins vegar hugmyndir stjórnvalda um innheimtu vegatolla á höfuðborgarsvæðinu og víðar verða að veruleika, þá er það ekki hægt nema skrá hverja einustu ferð með tollamyndavél. Þá fyrst færi stóri bróðir að skrá ferðir þínar.
Er ekki hætta á að einhverjir reyni að svindla?
Vissulega; slíkt er þó hægara sagt en gert. Álestur á kílómetramæli getur farið fram við árlega skoðun, á verkstæðum, sem eigin álestur, við skyndiskoðun lögreglu, við kaup og sölu, í tjónstilkynningum og jafnvel sjálfvirkt eftir því sem tækninni fleygir fram. Um áramót gæti bíleigandi fært kílómetrastöðuna inn í skattframtalið. Í mörgum bílum skráir innbyggð tölva aksturinn. Gagnagrunnur héldi utan um skráningarnar. Misræmi yrði fljótt að koma fram. Hæpið er að ávinningur af slíku svindli verði ómaksins eða niðurlægingarinnar virði.
Er olíufélögunum treystandi til að hækka ekki álagningu sína?
Einfalda svarið er nei. Tillögur FÍB gera ráð fyrir að bensínlítrinn lækki um 120 kr. þar sem skattar ríkissjóðs á hvern lítra falla niður. Sambærileg tala fyrir dísilolíu er um 106 kr. á lítra. Bitur reynsla sýnir að olíufélögin muni reyna að halda í hluta þessara fjármuna. Mjög stíft aðhald þarf frá neytendum. FÍB og Neytendasamtökin hafa verið þar fremst í flokki og svo verður áfram. Besta aðhaldið felst í því að hafa upplýsingar um innkaupsverð og verðmyndun opinberar og stuðla að raunverulegri samkeppni.
Er ekki betra að ríkið komi með tillögur um gjaldtöku af umferðinni?
Hugmyndir stjórnvalda til þessa lofa ekki góðu. Á þeim bæ hefur verið rætt um staðbundna gjaldtöku af ákveðnum nýframkvæmdum á borð við vegastyttingu, brýr og göng, svo og tafagjöld á höfuðborgarsvæðinu. Kostnaður við slíka innheimtu getur verið mjög hátt hlutfall af tekjunum. Lítið hefur verið rætt um að kílómetragjöld komi í staðinn, vegna þess að stjórnvöld virðast ekki hafa haft hugmynd um hvernig ætti að útfæra þau. Tillögur FÍB um kílómetragjöld leysa þann höfuðverk og ættu að duga til að slá aðrar gjaldtökuhugmyndir út af borðinu.
Hversu líklegt er að stjórnvöld fari eftir tillögu FÍB um kílómetragjald?
Tillagan og reikniformúla hennar mæta í raun öllum þörfum ríkissjóðs fyrir tekjuöflun vegna vegakerfisins. Ekki aðeins það, heldur hvetur tillagan til orkuskipta í samgöngum í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Reikniformúlan skapar mikinn sveigjanleika með tilliti til framtíðarþróunar bílaflotans. Framkvæmdin er í raun einföld; skráning á akstri ökutækja sem fer í einn gagnagrunn. Innheimtan er ódýr, krafa send í heimabanka bíleiganda mánaðarlega. Það er því allt í þessari tillögu sem mælir með því að ríkissjóður geri hana að sinni.
Verður afsláttur fyrir þá sem þurfa að keyra mjög mikið?
Nú þegar borga eigendur bensín- og dísilbíla fyrir afnot af vegakerfinu með kaupum á eldsneyti. Þeir sem keyra mikið borga fyrir eldsneytið í samræmi við það. Þess er ekki að vænta að það breytist með kílómetragjaldinu. Kílómetragjaldinu er ætlað að endurspegla raunveruleg afnot af vegakerfinu og þá CO2 mengun sem viðkomandi ökutæki veldur. Auk þess fara rafknúnir bílar að taka þátt í kostnaði við vegakerfið.
Kemur kílómetragjaldið niður á þungaflutningum á landsbyggðinni?
Í tillögum FÍB er ekki gert ráð fyrir að þungaflutningabílar í langferðum borgi í samræmi við slit þeirra á vegum landsins, enda myndu gjöldin þá hækka verulega. Ef stjórnvöld telja hins vegar ástæðu til að koma til móts við einhver byggðasvæði eða atvinnuvegi vegna gjaldtökunnar, þá verður það væntanlega tekið fyrir á viðeigandi vettvangi.
Hverjir borga lægsta kílómetragjaldið og hverjir hæsta?
Rafknúnir bílar og léttir bílar borga lægsta gjaldið. Rafknúnir bílar eru þó alla jafna þyngri en sambærilegir bensín- eða dísilbílar. Þungir bensín- og dísilbílar með stórar vélar sem menga mikið bera hæsta kílómetragjaldið. Kílómetragjaldið getur því verið hvati til að draga út notkun þungra og mengandi bíla og taka rafknúna bíla í notkun.
Hvað með tvinnbíla (hybrid)?
Tvinnbílar eru alla jafna skráðir með lágt gildi CO2 útblásturs þar sem þeir ganga til skiptis fyrir rafmagni og jarðefnaeldsneyti. Lágt CO2 gildi þýðir að umhverfisþátturinn í kílómetragjaldinu verður lægri en þó ekki á núlli eins og ef bíllinn væri eingöngu knúinn rafmagni.
Eru rafbílar að sleppa of vel?
Vissulega er formúla kílómetragjaldsins hagkvæm fyrir eigendur rafknúinna bíla. Umhverfisgjaldið er núll, eða mjög lágt í tilfelli tvinnbíla. Rafknúnir bílar nota vegakerfið hins vegar með sama hætti og aðrir bílar. Ættu rafbílar þá ekki að bera sömu gjöld, sérstaklega þar sem orkan fyrir þá er ódýrari en jarðefnaeldsneytið? Það eru gild sjónarmið, en í tillögum sínum um útreikning kílómetragjalds tekur FÍB mið af stefnumörkun stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum. Þar er hvatt til þess að rafknúnir bílar leysi bíla af hólmi sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.