Barnabílstóll


Hvernig á að velja rétta barnastólinn?

Stóllinn skal hæfa þyngd og stærð barnsins. Ekki er nóg að fara bara eftir aldri barnsins þegar keyptur er barnastóll.

 Það er skelfilegt þegar börn láta lífið í bílslysum. Enn skelfilegra er að hugsa til þess að mörg þessara barna hefðu lifað, hefðu foreldrarnir eða forráðamenn séð til þess að þau væru spennt föst í bílnum, Talið er að ríflega helmingur þeirra barna sem slasast eða látast í bílslysum hefðu sloppið nánast ósködduð, hefðu þau verið spennt föst í viðeigandi öryggisbúnað þegar slysið varð.

  • Hvernig barnastól skal velja?
  • Hvar á að staðsetja barnastólinn?
  • Hvað segja lögin um barnaöryggisbúnað?
  • Viðurkenningarmerkingar
  • Barnastólaprófun

Mörg börn hefðu lifað og jafnvel sloppið ósködduð, hefðu þau verið spennt í viðeigandi öryggisbúnað.

 

Hvernig á að velja rétta barnastólinn?

Stóllinn skal hæfa þyngd og stærð barnsins. Ekki er nóg að fara bara eftir aldri barnsins þegar keyptur er barnastóll. Verulegur munur getur verið á stærð og þyngd jafn gamalla barna. Mikilvægt er því að stóll hæfi hverju einstöku barni. Veldu því barnaöryggisbúnaðinn eftir því hvort hann hæfir barninu þínu. Það er ekki nóg að fara bara eftir aldri þess.

 Þegar keyptur er barnaöryggisbúnaður er nauðsynlegt að taka bæði bílinn og barnið með, svo hægt sé að máta búnaðinn við bæði barnið og bílinn. Notaðu þá „þumalfingursreglu“ að sé höfuð barnsins í mesta lagi tveimur sentimetrum hærra en stólbakið þegar það situr í stólnum, þá er stóllinn of lítill fyrir barnið þitt.

Systurfélag okkar í Þýskalandi ADAC gerir reglulega gæðakönnun á barnabílstólum en hægt er að flétta upp þeim stólum sem þeir hafa prófað hérhttps://www.adac.de/infotestrat/tests/kindersicherung/kindersitz-test/default.aspx

 

Ungbarnastólar og barnastólar

Misjafnt er eftir tegundum hversu lengi ungbarnastólarnir duga., en yfirleitt vex barnið upp úr ungbarnastólnum við 8-13 mánaða aldurinn. Þá er nauðsynlegt að skipta um og fá barnastól. Barnastólar snúa ýmist í akstursstefnu eða gagnstætt henni í bílnum og geta verið hvort heldur sem er í fram- eða aftursæti. Í öllum nýjustu bílunum eru loftpúðar við framsæti og sé ekki hægt að aftengja púðann, þá má alls ekki setja barnastól í sætið. Ef púðinn springur út getur hann stórslasað eða deytt lítið barn. Þó að hægt sé að aftengja púðann með lykli er samt varasamt að setja barnastólinn í framsætið. Dæmi eru um að aftengdir loftpúðar hafi sprungið út við árekstur. En almennt séð er æskilegt að börn séu spennt í stóla sem snúa gagnstætt akstursstefnu. Þannig eru börnin best varin ef árekstur á sér stað.

 

Gagnstætt akstursstefnu Barnabílstólar sem ætlað er að snúa gagnstætt akstursstefnu, er bæði hægt að festa með  þriggja punkta öryggisbelti og þeim ólum sem stólnum fylgja eða nota svokallaðn "Base" sem festur er með isofixfestingum við grind bílsins og er mun fljótlegara og þægilegara að losa stólinn og festa í bílinn.

 

Setpúði með baki  

Við 3-4 ára aldur er barnið við það að vaxa upp úr velflestum barnastólum en samt of smávaxið til að nota bílbeltin einvörðungu. Það er vegna þess að skáólin yfir bringuna frá öxl að mjöðm er yfirleitt of nærri hálsi barnsins auk þess sem það situr ekki nægilega stöðugt í sætinu sem ætlað er fullvöxnu fólki fyrst og fremst. Fáðu því setpúða með baki handa barninu.

Setpúðinn lyftir barninu svo það situr hærra en ella og getur því notað öryggisbelti bílsins. Á setpúðanum eiga að vera svonefndum beltastýringum. Beltastýringarnar eru litlir armpúðar sem beltið fer undir og liggur yfir mjaðmagrind barnsins. Fari beltið hins vegar yfir maga barnsins skapast hætta á alvarlegum innri meiðslum á líffærum ef árekstur verður. Mjaðmagrindin er best fallin til þess að taka við þeirri miklu áraun sem vænta má ef árekstur eða slys verður.  Í mörgum tilfellum situr öryggisbelti bílsins of hátt fyrir barnið, enda þótt það setji á púða. Beltið er háskalega nærri hálsi barnsins.  Af þeirri ástæðu skal velja setpúða með baki því að á bakinu er stýring fyrir öryggisbeltið sem sér til þess að beltið situr rétt á barninu. Bakið verndar einnig höfuðið á barninu og háls þess og veitir stuðning, ekki síst þegar barnið sofnar í bílnum.

Akstur með börn á vegum dagvistunaraðila Þegar dagvistunaraðilar, hvort heldur það eru leikskólar eða dagmæður, þurfa að ferðast með börnin í bílum milli staða ber þessum aðilum að sjálfsögðu að fara eftir sömu reglum og gilda um börn í einkabílum. Fæstir dagvistunaraðilar hafa þó efni á að kaupa barnaöryggisbúnað og uppfæra hann reglulega. En foreldrarnir ættu að geta útvegað búnaðinn þegar á þarf að halda. Skynsamlegt er því að velja alla jafna barnaöryggisbúnað sem auðvelt er að flytja milli bíla og lána dagvistunaraðilanum hann þegar til stendur að fara með börnin í bílferðalag. Sem foreldri hefur þú vald til að leggja blátt bann við því að barnið þitt sé flutt óspennt í bíl milli staða.

Ef þú verður var við að öryggi barnanna, þar á meðal öryggis barnsins þíns er ekki gætt sem skyldi af hálfu dagvistunaraðila að þessu leyti, ættirðu að taka málið upp á foreldrafundi og stuðla að því að  settar verði fastar reglur um þessi mál sem starfsfólki dagvistunaraðilans ber síðan að fara eftir.

Almenna reglan er sú að ökumaður ber ábyrgð á því að farþegar hans spenni beltin og að börn séu spennt í öryggisbúnað sem hæfir aldri þeirra og stærð. Ekki mega fleiri vera í bíl en skráð farþegatala bílsins segir til um. Einu gildir á hvaða aldri farþegar eru að þessu leyti.

 

Rétt staðsetning barnastólsins  - fimm sinnum öruggara í afturvísandi stól

Á markaði eru til bæði stólar sem snúa eiga fram eða aftur í bílnum. Rannsóknir hafa sýnt að stóll sem snýr aftur (gagnstætt akstursstefnu) er fimm sinnum öruggari en sá sem snýr fram á við. Verði árekstur jafnast álagið mun betur á líkama barnsins í afturvísandi stól, en í stól sem snýr fram á við.

Hálshnykkur
Í stól sem snýr aftur eru mun minni líkur á alvarlegum hálshnykk en í stól sem snýr fram. Hálshnykkur verður við það þegar höfuðið kastast af miklu afli fram við áreksturinn og síðan til baka. Litlum börnum er mjög hætt við alvarlegum hálshnykksmeiðslum. Það er vegna þess að hálsvöðvarnir eru alls ekki fullþroskaðir. Því til viðbótar eru höfuð þeirra þrefalt þyngri sem hlutfall af líkamsþyngd. Af þessari ástæðu hljótum við að mæla eindregið með því að fólk velji frekar afturvísandi stól, sé á annað borð mögulegt að koma honum fyrir í heimilisbílnum.    


Staðsetning í bílum með loftpúða

Loftpúðar í bílum eru að stærð og afli miðaðir við fullvaxta fólk. Sænskar og bandarískar rannsóknir sýna að börn, sérstaklega smábörn, eru í alvarlegri slysa- eða lífshættu ef loftpúði fyrir framan þau springur út við árekstur. Þegar valinn er nýr bíll er því sjálfsagt að meta barnaflutningsþarfir fjölskyldunnar næstu árin. Gakktu því úr skugga um hversu margir loftpúðar eru í bílnum sem þú ágirnist, hvar þeir eru í bílnum og hvort hægt sé að aftengja eða fjarlægja þá púða sem hætta er á að gætu skaðað barnið eða börnin ef slys verður.


Börn undir 150 sm á hæð

Barn minna en 150 sm má ekki undir neinum kringumstæðum sitja í framsæti þar sem loftpúði er, hvort sem er í barnabílstól eða án. Börnin skulu vera í aftursæti nema þá  að búið sé að aftengja og helst að fjarlægja loftpúðann við framsætið.


Börn yfir 150 sm á hæð

Börn sem eru yfir 150sm á hæð mega sitja í framsætinu ef þau geta notað þriggja punkta öryggisbeltið í sætinu án nokkurra hjálpartækja. Gott er að draga framsætið eins langt aftur og það kemst til að fjarlægðin frá púðanum sé sem allra lengst.


Hliðarloftpúðar

Ef hliðarloftpúðar eða loftpúðagardínur eru í bílnum skal barnið forðast að láta höfuðið hvíla upp að dyrunum, dyrastafnum eða glugganum. Ef slys verður og púðinn springur út getur hann slasað barnið ef höfuðið er  nærri loftpúðanum. Ef séð er til þess að barnið sé í eðlilegri stellingu og stóllinn á réttum stað gagnvart festingum þá á ekki að vera nein hætta á ferðum af völdum hliðarloftpúða.


Aftenging á loftpúða

Það er vissulega mikið hagræði að því að hafa lítið barn í bakvísandi barnastól í framsætinu við hlið sér, sérstaklega ef maður þarf að vera einn að keyra með barnið og ef það er órólegt. Sé maður auk þess ða tveggja sæta bíl, þá er það beinlínis nauðsynlegt að hafa barnið í sætinu við hlið sér þar sem ekki er um annan stað að ræða í slíkum bílum. Mundu bara að það er lífshættulegt fyrir barn og auk þess ólöglegt að setja barn í afturvísandi stól aftan við virkan loftpúða. 
 
Margir bílar eru þannig búnir að það er hægt að aftengja loftpúðann með kveikjulykli bílsins. Reynslan hefur hins vegar sýnt að slík aftenging virkar ekki í öllum tilfellum. Það er ekki hægt fyllilega að treysta því að púðinn sé orðin óvirkur. En það er ekki ólöglegt að setja barn í framsæti í framvísandi stól með aftengibúnaði af þessu tagi, sé á annað borð munað eftir því að aftengja púðann. Ef þú gerir það, skaltu færa sætið eins langt aftur eins og það kemst, svo barnið sé sem lengst frá púðanum ef hann springur út. 
Í mörgum bílum er hægt að láta aftengja framsætisloftpúðann og/eða fjarlægja hann eða sprengihleðsluna fyrir hann á viðurkenndu bílaverkstæði. Þegar það hefur verið gert má auðvitað setja barn í framsætið í afturvísandi stól. Gallinn er auðvitað sá að þegar fullorðinn sest í framsætið er þar enginn loftpúði lengur sem ver hann ef árekstur verður. 
 

Barnabílstóllinn festur
Rannsóknir sýna að 6 af hverjum 10 barnastólum eru ranglega festir í bíla og til þessara mistaka má oft rekja alvarleg meiðsli og dauðföll barna í umferðarslysum. Lestu því vel notkunarleiðbeiningarnar sem stólnum fylgja og farðu nákvæmlega eftir þeim. Stóllinn á að vera eins fastspenntur og mögulegt er. Þrýstu honum niður í sætið um leið og þú spennir hann fastan í öryggisbelti bílsins og þegar þú strekkir á því á eftir.


Spenntu stólbeltin um barnið

Margir – of margir foreldrar gleyma að stilla beltin í stólnum sjálfum um leið og þau spenna barnið í stólinn. Stólbeltin eiga að vera eins strekkt utan um barnið  og mögulegt er án þess að vera því til óþæginda. Beltin eru nógu vel strekkt þegar þú getur smeygt flötum lófanum undir beltin þegar búið er að læsa þeim utanum barnið. Hafa ber í huga að ef beltin eru of slök kemur auka högg á barnið ef árekstur verður. Slíkt högg getur valdið alvarlegum áverkum á innri líffæri. Ef stólbeltin eru mjög slök getur barnið jafnvel losnað og kastast úr stólnum. Ekki þarf að tíunda það hversu alvarlegar afleiðingar slíkt getur haft.