EuroRAP vegaöryggi


Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) sér um framkvæmd EuroRAP á Íslandi.
EuroRAP
eru samtök 29 bifreiðaeigendafélaga í jafnmörgum löndum Evrópu, stofnuð árið 1999 að frumkvæði FIA, alþjóðasamtaka bifreiðaeigendafélaga. Auk FIA eru 14 opinberar stofnanir nokkurra Evrópulanda, t.d sænska Vegagerðin, TRL í Bretlandi og fleiri stuðningsaðilar við EuroRAP.  Þá eru Evrópusambandið, FIA Foundation, Toyota Motor Company og AA Trust í Bretlandi fjárhagslegir bakhjarlar. Hlutverk EuroRAP/FÍB er að framkvæma gæðamat á vegum út frá slysasögu og mati á öryggi veganna samkvæmt samhæfðum aðferðum.  EuroRAP er systurverkefni EuroNCAP, sem árekstrarprófar bíla og gefur stjörnur miðað við öryggi. Meginmarkmið beggja verkefnanna er að fækka verulega banaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni.  

 

EuroRAP verkefnið felst í því að vegir eru skoðaðir með tilliti til öryggisþátta í umhverfi þeirra. Sérbúnum skoðunarbíl er ekið um vegina og tæknibúnaður í honum, ásamt sjónrænni skoðun, safnar gögnum um vegina og umhverfi þeirra með tilliti til slysahættu fyrir vegfarendur. Úr þessum gögnum er síðan unnið sérstakt áhættumat og áhættukort fyrir heildarvegi og vegarkafla. Áhættumatið verður síðan leiðbeinandi fyrir ökumenn, fyrir veghaldara og vegagerðarfólk um hvað skal gera til að draga úr slysahættu á vegunum og hvernig nýir vegir verði best úr garði gerðir til að slysahætta verði sem minnst. Upplýsingarnar eru einnig mjög mikils virði fyrir stjórnmálamenn og þá sem taka ákvarðanir um framkvæmdir við vegagerð.  Ólafur Guðmundsson er tæknistjóri EuroRAP/FÍB á Íslandi. Gefnar eru stjörnur fyrir hvern vegarkafla frá einni stjörnu til fjögurra. Markmiðið er að fá sem flestar stjörnur.

 

EuroRAP verkefnið skiptist í tvo megin kafla.  Áhættukort (RRM) og öryggisskoðun vega (RPS).  RRM er skammstöfun fyrir “Risk Rate Maping” og RPS er skammstöfun á “Road Protection Score”.  Áhættukortin eru gerð þannig, að öll alvarleg umferðarslys yfir 5 ára tímabil eru greind niður á veghluta vegakerfisins og lengd vegkafla og umferðarmagn (ÁDU) vegið með.  Úr þessu er síðan unnið kort sem sýnir þá vegakafla sem hafa versta slysatíðni með tilliti til umferðarmagns. 

 

Samkvæmt EuroRAP kerfinu, þá eru þeir vegir sem skoðaðir eru teknir út á þriggja ára fresti. 

Öryggisskoðun vega - SPS (RPS) – Safey protection score.

  •  Mat á öryggi vega framkvæmt úr bíl og tölvuvinnslu.

Áhættukort vega – RRM - Risk rate mapping.

  •  Slysakort sem byggja á KSI yfir 3 til 5 ára tímabil.
  •  Reiknað sem áhætta á hverja milljón ekinna kílómetra.

Árangursmat – Performance tracking.

  •  Áhættukortin borin saman milli 3 – 5 ára tímabila.
  •  Árangur mældur í færri slysum og minni áhættu.

  

EuroRAP öryggismat íslenska vegakerfisins - mars 2018
Stjörnugjöf vegakerfisins miðað við farþega ökutækja. 
Útgáfa 3.02 Mæling 2012 - 2017
 

EuroRAP/FÍB skýrsla 2010 
465 km vega í þessari skýrslu voru upphaflega metin árið 2006 og voru endurmetnir á árinu 2009 til að fá úr því skorið hvernig "Star Ratings" hafa breyst með vegabótum. Samkvæmt úttektinni er 27,56% vegakerfisins nú með tvær stjörnur og 72,15% er með þrjár stjörnur. Þessar tölur sýna að við þurfum að herða róðurinn. 

EuroRAP/FÍB skýrsla 2008
Samtals 2.450 km. af vegakerfinu skoðaðir.  Sú vinna var framkvæmd á árinu 2006 og lauk í september 2007.  Niðurstöðurnar voru unnar í Svíþjóð settar fram í kortum.   Skýrsla var unnin og birt á Umferðarþingi 2008.

 

EuroRAP/FÍB skýrsla 2006  

Í upphafi árs 2006 voru skoðaðir 175 km. í forkönnun, með aðstoð frá Svíþjóð, þar sem skoðunarteymi frá verkfræðistofunni SWECO þjálfaði og prófaði tæki og gögn.  Skýrsla eftir þá prófun var birt miðju ári 2006.

 

Áhættukortabók EuroRAP , European Road Safety Atlas, rafræn vegakortabók EuroRAP þar sem vegir eru flokkaðir eftir því hversu hættulegt það telst að ferðast á þeim.

Í bókinni eru vegir áhættugreindir með mismunandi litum og eru svartlitaðir vegir háskalegastir. Á þeim er lífshættan mest, bæði með hliðsjón af slysatíðni og almennu ástandi veganna. Grænmerktir vegir eru þeir þar sem hættan er minnst en milli grænna og svartra vega eru síðan þrjú önnnur hættustig sem merkt eru með gulum, brúnum eða rauðum. 

EuroRAP/FÍB á Íslandi, Skúlagötu 19, 101 Reykjavík, sími 414-9999, eurorap@fib.is