Úrskurðarnefnd vátrygginga
Fjármálaeftirlitið vistar Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, en nefndin fjallar um ágreining um bótaskyldu, þar með talið sök og sakarskiptingu milli neytenda og vátryggingafélags. Fjármálaeftirlitið tekur við málskotum neytenda, sér nefndinni fyrir fundaraðstöðu og annast almennt skrifstofuhald fyrir hana.
Katrínartún 2, 105 Reykjavík. Sími: 520 3888. Einnig er hægt að senda tölvupóst á: urskvatr@fme.is. Opnunartími afgreiðslu er frá kl. 9:00 til 16:00 virka daga. Símatími nefndarinnar er á þriðjudögum kl. 10-11 og fimmtudögum kl. 14-15.(PDF skjal) Samþykktir nefndarinnar
Hverjir geta leitað til nefndarinnar - Tímafrestur
Sá aðili sem skýtur máli sínu til nefndarinnar nefnist málskotsaðili. Málskotsaðili getur verið vátryggingartaki, vátryggður, þar á meðal meðvátryggður, rétthafi bóta, tjónþoli og hver sá annar er telur sig eiga rétt til bóta úr vátryggingu eða á annarra hagsmuna að gæta vegna vátryggingarsamnings samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga. Málskot verður að fullnægja skilyrðum 1. mgr. 3. gr. Um að ágreiningurinn heyri undir starfssvið nefndarinnar. Vátryggingafélög skulu kynna viðskiptavinum sínum með tryggilegum hætti möguleika þeirra á að skjóta málum til nefndarinnar.
Athygli er vakin á því að áður en málskotsaðili getur leitað til nefndarinnar skal hann hafa lagt kröfur sínar fyrir hlutaðeigandi vátryggingafélag. Málskot verður að hafa borist nefndinni innan árs frá því að málskotsaðili fékk skriflega tilkynningu vátryggingafélags um að kröfu hans væri hafnað. Bregðist vátryggingafélag ekki við skriflegri kröfu málskotsaðila innan þriggja vikna frá móttöku hennar er málskotsaðila heimilt að leita með málið beint til úrskurðarnefndar. Þegar sérstaklega stendur á er nefndinni heimilt að taka mál til umfjöllunar þrátt fyrir að framangreindu skilyrði sé ekki fullnægt.
Hvernig á að óska eftir úrskurði?
Fylla þarf út sérstakt eyðublað sem hægt er að nálgast hér: ( (PDF skjal) Málsskotseyðublað ; (DOC skjal) Málsskotseyðublað).
Lögfræðiráðgjafi FIB býður félagsmönnum aðstoð við gerð eyðublaðsins, ef óskað er.
Eyðublaðið þarf að fylla út og senda í tölvupósti á urskvatr@sedlabanki.is eða í pósti á: Seðlabanki Íslands, Kalkofnsvegi 1, 101 Reykjavík, merkt Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.
Einnig er hægt að nálgast eyðublöð á skrifstofu Fjármálaeftirlitsins, skrifstofu Samtaka fjármálafyrirtækja, hjá vátryggingafélögum eða Neytendasamtökunum.
Málskotsgjald er kr. 9.200,-. Ekki er tekið við málskoti nema gjaldið sé greitt inn á reikning:
Seðlabanki Íslands nr. 0001-26-040029 og kt. 560269-4129
Nauðsynlegt er að setja kvittun fyrir greiðslunni með málskotinu.
Gjaldið fæst endurgreitt falli mál að hluta til eða öllu leyti málskotsaðila í vil.
Mikilvægt er að málskotinu fylgi gögn sem upplýsi um þann ágreining sem fyrir hendi er og afstöðu aðila þ. á m. röksemdir fyrir kvörtun, sjónarmið málskotsaðilans o.s.frv. sbr. nánar málskotseyðublaðið, þannig að unnt sé að úrskurða í málinu. Góður undirbúningur auðveldar störf nefndarinnar og flýtir fyrir lyktum málsins. Nauðsynlegt er að þeir sem óska eftir úrskurði nefndarinnar kynni sér nánari upplýsingar um nefndina og störf hennar sem fram koma hér á eftir.
Takmörk eru sett fyrir heimild til endurupptöku mála sem undirstrika mikilvægi þess að vandað sé til málskots hverju sinni. Samkvæmt samþykktum nefndarinnar getur nefndin tekið ákvörðun um að mál sem úrskurðað hefur verið í af nefndinni skuli tekið fyrir aftur ef fram koma nýjar upplýsingar sem eru þess eðlis að hefðu þær legið fyrir við uppkvaðningu úrskurðar gætu þær hafa leitt til annarrar niðurstöðu.
Úrskurður nefndarinnar hindrar ekki umfjöllun dómstóla síðar.
Hverjir standa að nefndinni?
Úrskurðarnefndin starfar samkvæmt samkomulagi fjármála- og efnahagsráðuneytis, Neytendasamtakanna og Samtaka fjármálafyrirtækja. Úrskurðarnefndin tók til starfa árið 1994. Samþykktir nefndarinnar voru birtar með auglýsingu í Stjórnartíðindum nr. 336/1996, en þar er kveðið á um störf nefndarinnar. Úrskurðarnefndin er skráð samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála nr. 81/2019.
Um hvað fjallar nefndin?
Nefndin fjallar um ágreining varðandi bótaskyldu, þ.m.t. sök og sakarskiptingu milli neytenda og vátryggingafélags, sem starfsleyfi hefur hér á landi.
Nefndin fjallar ekki um eftirfarandi atriði
- Nefndin fjallar ekki um bótafjárhæðir nema að fengnu samþykki beggja aðila, það er neytandans og viðkomandi vátryggingafélags.
- Nefndin fjallar ekki um ágreining sem heyrir undir stjórnvöld
- Nefndin fjallar ekki um kröfu neytenda sem ekki verður metin til fjár
- Nefndi fjallar ekki um breytingar á iðgjöldum vátryggingafélaga
- Nefndin fjallar ekki um ágreiningsmál sem er til meðferðar almennra dómstóla eða gerðardómseða að mál sé það óljóst, illa upplýst eða krafa aðila það óskýr að það sé ekki tækt til úrskurðar.
Meginverkefni nefndarinnar er að fjalla um ágreining neytanda og innlends vátryggingafélags. Mögulegt er þó að vísa til nefndarinnar ágreiningi við erlent vátryggingafélag, sem starfsleyfi hefur hér á landi. Til þess að nefndin geti tekið slíkt mál til útskurðar þarf hið erlenda vátryggingfélag þó að veita samþykki sitt.
Nefndin úrskurðar hvort ágreiningur aðila heyri undir nefndina og hvort hann sé þess eðlis eða studdur þeim gögnum að unnt sé að úrskurða í málinu. Telji nefndin svo ekki vera vísar hún málinu frá.
Hverjir sitja í nefndinni?
Í nefndinni sitja þrír fulltrúar og þrír til vara, sem allir skulu vera löglærðir og valdir til tveggja ára í senn. Stofnaðilar nefndarinnar velja hver sinn aðal- og varamann til setu í nefndinni. Nefndin velur sér formann og varaformann.
Ef þú hefur lent í árekstri við ótryggðan bíl nánar hér.