Tólf mikilvæg ferðagögn
Þegar ferðast er með bíl er gott að vera félagi í FÍB.
FÍB er aðili að alþjóðasamtökum bifreiðaeigenda Federation Internationale de l´Automobile - FIA. FÍB og önnur bifreiðaeigendafélög víða um heim hafa með sér gagnkvæma samvinnu varðandi margs konar aðstoð og fyrirgreiðslu við félagsmenn á ferðalögum s.s. vegaaðstoð, ferðaupplýsingar, afslætti o.fl.
Það er mjög mikilvægt að hafa öll ferðagögnin í lagi og að þau séu meðferðis þegar haldið er í bílferðalag erlendis.
Farðu yfir þennan lista áður en þú lokar ferðatöskunum og læsir útidyrunum.
1. Mundu eftir félagsskírteininu!
Það er forsendan að aðgangi að margvíslegri þjónustu systurfélaga FÍB og afsláttarneti út um allan heim.
2. Vegabréf
Gilt vegabréf er nauðsynlegt. Þótt norrænir ríkisborgarar þurfi ekki að framvísa vegabréfi við komu til annarra Norðurlanda heldur dugi almenn persónuskilríki, þá er vegabréfið algjör nauðsyn ef lengra skal halda. Innan Norðurlandanna er þó alltaf til bóta að hafa vegabréfið við höndina, t.d. þegar reka þarf alls kyns erindi, t.d. í bönkum, á hótelum eða tjaldsvæðum. Allir sem náð hafa 15 ára aldri skulu bera eigið vegabréf á ferðalögum utan Norðurlandanna. Hægt er einnig að fá útgefið vegabréf fyrir börn undir 15 ára aldri, en ekki nauðsynlegt ef einungis er ferðast innan Evrópu, t.d. innan Schengen svæðisins. Þar nægir að börn undir 15 ára aldri séu skráð í vegabréf foreldra eða foreldris. Nánari uppl.
3. Ökuskírteini
Almennt íslenskt ökuskírteini (bleika plastkortið í sömu stærð og greiðslukort) er fullgilt innan Evrópu. Í mörgum löndum A. Evrópu er skynsamlegt að hafa líka meðferðis alþjóðlegt ökuskírteini og í öðrum heimshlutum er alþjóðlegt ökuskírteini ásamt gildu íslensku ökuskírteini nauðsynlegt. FÍB gefur út alþjóðleg ökuskírteini og sömuleiðis lögregluembætti.
4. Skráningarskírteini
Skráningaskírteini eigin bíls eða þess bíls sem ferðast er á (og hjólhýsisins, tjaldvagnsins eða kerrunnar) verður að vera meðferðis. Geymdu skráningarskírteinið (skírteinin) vel og skildu ekki eftir í hanskahólfinu þegar bíllinn er yfirgefinn.
5. Græna kortið
Græna kortið fæst hjá tryggingafélaginu þínu. Græna kortið er alþjóðleg staðfesting þess að bíllinn er ábyrgðartryggður. Það er skynsamlegt að hafa græna kortið tiltækt á ferðalögum um V. Evrópu og bráðnauðsynlegt og skylt í Albaníu, Andorra, Bosníu/Herzegóvínu, Búlgaríu, Hvíta-Rússlandi, Makedóníu, Moldavíu, Rúmeníu, Serbíu-Montenegro, Tyrklandi og Úkraínu.
6. Staðfesting á kaskótryggingu
Æskilegt er að hafa staðfestingu frá tryggingafélagi (á ensku) um að bíllinn - og mögulega ferðavagn - sé kaskótryggður. Í flestum Evrópulöndum þarf að kaskótryggja hjólhýsi, tjaldvagna og kerrur sérstkaklega. Kynnið ykkur vel skilmála og landfræðileg mörk vátryggingarinnar. Athugið einnig að oft eru takmarkanir varðandi ábyrgðir, gildistíma o.fl. ef ekið er utan Íslands.
7. Ferðatryggingar
Ýmsar ferðatryggingar eru innifaldar í greiðslukortum og gilda ef ferðin hefur að hluta eða öllu leyti verið greitt með greiðslukorti. Sömuleiðis bjóða tryggingafélög margskonar ferða- og farangurstryggingar. Lesið tryggingaskilmála og spyrjist fyrir um tryggingar til að forðast tví- eða margtryggingar á sömu þáttum.
8. Evrópska sjúkratryggingakortið
Til að verða sér úti um Evrópska sjúkratryggingakortið fer maður á island.is. Kortið gildir í öllum ríkjum EES og Sviss og staðfestir rétt korthafa til heilbrigðisþjónustu sem kann að verða nauðsynleg á ferðalaginu. Þegar komið er á heilsugæslustöð, sjúkrahús eða apótek má búast við að einnig þurfi að framvísa vegabréfi eða öðrum persónuskilríkjum. Kortið gildir í eftirtöldum löndum: Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Írlandi, Ítalíu, Kýpur (gríska hlutanum), Lettlandi, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Möltu, Noregi, Portúgal, Póllandi, Slóvakíu, Slóveníu, Spáni, Sviss, Svíþjóð, Tékklandi, Ungverjalandi og Þýskalandi.
9. Lyfjavottorð (Schengenvottorð)
Lyfjavottorð er vottorð frá heimilis- eða heilsugæslulækni fyrir þá sem heilsu sinnar vegna þurfa að taka eftirritunarskyld lyf sem geta valdið vímuáhrifum og hafa þau meðferðis við komu til landa innan Schengen svæðisins. Til að vottorðið sé tekið gilt þarf það að vera vottað og stimplað af landlæknisembættinu.
10. Tjaldbúðaskírteini
Alþjóðlegt tjaldbúðaskírteini er nauðsynlegt þegar gist er á tjaldsvæðum í Evrópu. Handhafar þess njóta bæði forgangs og ýmissa fríðinda auk tryggingar gagnvart þriðja aðila. Skírteinið er eingöngu gefið út til félagsmanna FÍB. Nánari uppl.
11. Hraðbrautamerki (límmiðar í framrúðuna)
Hraðbrautamerki eru staðfesting þess að greidd hafi verið eingreiðsla fyrir tímabundin afnot af hraðbrautum viðkomandi lands. Þau Evrópulönd sem krefjast hraðbrautamerkja eru: Búlgaría, Rúmenía (sem líka krefur um greiðslu fyrir afnot af öðrum vegum), Sviss, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland, Ungverjaland og Austurríki. Hraðbrautamerkin fást á landamærastöðvum og bensínstöðvum í grennd við landamæri þessara landa. Frekari uppl.
12.Öryggisvesti
Að lokum þetta: Noregur, Frakkland, Þýskaland, Austurríki, Ítalía, Portúgal, Spánn og fleiri Evrópulönd krefjast þess að öryggisvesti í skærgulum eða appelsínugulum lit sé í bílnum. Ef stöðva þarf bíl í vegakanti, t.d. til að skipta um dekk, skal sá sem það gerir klæðast þessu vesti. Sektir liggja við að gera það ekki. Öryggisvesti fæst í FÍB verslun