Heimsátakið #SaveKidsLives
Heimsátakið #SaveKidsLives er hluti af alþjóðlegri samvinnu um umferðaröryggi á vegum Sameinuðu þjóðanna. FIA, alþjóðasamtök bíleigendafélaga og þar með FÍB eru samstarfs- og styrktaraðilar þessarar herferðar.
FIA hafði frumkvæði og lét framleiða áhrifamikla stuttmynd um börn í umferð. Myndinni er leikstýrt af franska leikstjóranum Luc Besson og varpar m.a. ljósi á þær hættur sem börn á leið til skóla búa við. Það er hræðileg staðreynd að 500 börn láta lífið daglega í umferðinni. Myndina er hægt að sjá hér.
Í tengslum við frumsýningu myndarinnar sagði Jean Todt, forseti FIA m.a: ,, Umferðarslys eru í dag helsta ástæða dauðsfalla ungs fólks á aldrinum 15 til 29 ára. Ef ekki verður gripið til aðgerða munu umferðarslys einnig verða megin dauðsvaldur barna á aldrinum 5 til 14 ára. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að stöðva þessa plágu og þessi mynd er hvatning til aðgerða.”
Átakinu var hleypt af stokkunum á alþjólegu umferðaröryggisviku SÞ í maí í vor. Átakið er hvatning til stjórnvalda um allan heim um að taka þátt í alþjóðlegri ráðstefnu SÞ um umferðaröryggi í Brasilíu frá 17. til 19. nóvember 2015. Herferðin er leidd af börnum og krafist er brýnna aðgerða til að snúa þróuninni við og bjarga mannslífum.
Með því að ljá nafnið þitt við átakið http://www.savekidslives2015.org/ hjálpar þú við að:
- Fara yfir og bæta hættulegar aðstæður barna og óvarinna vegfarenda í umferðinni.
- Hvetja til heimsátaks til að bæta öryggi í umferðinni með sérstaka áherslu á öryggi barna.
- Kalla eftir skuldbindingum þjóða heims í tengslum við þróunarmarkmið komandi ára um að draga úr mannfórnum umferðarinnar.
Herferðin er hluti af aðgerðaráætlun SÞ um áratug aðgerða í umferðaröryggismálum 2011-2020 (Decade of Action), sem er víðtækt samstarfsverkefni ríkisstjórna og félagasamtaka (United Nations Road Safety Collaboration).