Ölvunarakstur
- Hvaða reglur gilda um akstur undir áhrifum áfengis, lyfja eða ávana- og fíkniefna?
Samkvæmt umferðarlögum skal ökumaður vera líkamlega og andlega fær um að stjórna því ökutæki sem hann fer með. Enginn má stjórna eða reyna að stjórna ökutæki ef hann vegna veikinda, hrörnunar, ofreynslu, svefnleysis, neyslu áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna eða annarra orsaka er þannig á sig kominn að hann er ekki fær um að stjórna ökutækinu örugglega. Í umferðarlögum er kveðið á um að ökumaður megi ekki neyta áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna við stjórn vélknúins ökutækis. Ennfremur að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna vélknunu ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru.
- Hvað þarf vínandamagn í blóði að vera mikið til að ökumaður teljist ekki geta stjórnað ökutæki örugglega?
Ef vínandamagn í blóði ökumanns nemur 0,20 prómillum, en er minna en 1,2 prómill, eða vínandamagn í lofti sem hann andar frá sér nemur 0,1 milligrömmum í lítra lofts en er minna en 0,60 milligrömm eða ökumaður er undir áhrifum áfengis þótt vínandamagn í blóði hans eða útöndun sé minna telst hann ekki getað stjórnað ökutæki örugglega. Ef vínandamagn í blóði ökumanns nemur 1,2 prómillum eða meira eða vínandamagn í lofti sem hann andar frá sér nemur 0,6 milligrömmum í lítra lofts eða meira telst hann óhæfur til að stjórna ökutæki.
- Hve langan tíma tekur fyrir vínanda að hverfa úr blóðinu?
Ýmsir þættir hafa áhrif á hversu lengi vínandi er að hverfa úr blóðinu svo sem magn þess áfengis sem innbyrt er og líkamsbygging einstaklingsins. Þess vegna er ekki hægt að setja algild tímamörk. Lifrin minnkar vínandann í blóðinu um 0,15 prómill á klukkustund og meðan á því stendur er best að hvílast vel. Ekki er hægt að flýta fyrir niðurbroti vínanda í blóði með neinum hætti en margir virðast halda að svo sé. Kaffidrykkja, köld sturta, líkamsæfingar eða annað slíkt leiða ekki til þess að það renni hraðar af fólki. Enn fremur er bent á að þeir sem þjást af eftirköstum drykkju svo sem höfuðverki, sleni og þreytu eru ekki vel upplagðir til aksturs.
- Hvaða viðurlög liggja við ölvunarakstri?
Viðurlög við ölvunarakstri fara eftir vínandamagni í blóði. Sé vínandamagnið til dæmis á bilinu 0,5 prómill til 0,6 prómill fær viðkomandi 2 mánaða sviptingu ökuréttinda og 90.000 króna sekt. Eftir því sem vínandamagnið er meira í blóðinu hækka sektirnar og ökuleyfissviptingarnar verða lengri. Sé vínandamagnið á bilinu 0,91 prómill til 1,10 prómill fær viðkomandi 8 mánaða sviptingu og 130.000 króna sekt og sé vínandamagnið á bilinu 1,20-1,50 prómill er sviptingin 18 mánuðir og sektin 180.000 krónur. Sá sem sviptur hefur verið ökuréttindum um lengri tíma en eitt ár öðlast ekki ökuréttindi að nýju að loknum sviptingartíma nema hann standist hæfnispróf. Nánari upplýsingar um viðurlög við ölvunarakstri má sjá í reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum (49. grein). Reglugerð
Áhrif áfengis á atferli og aksturshæfni |
|||
fjöldi áfengra drykkja* | vínandi íblóði (0/00) | tilfinningaleg og hegðunarleg áhrif | áhrif á aksturshæfni |
---|---|---|---|
1 |
0,2 |
Varla greinanleg áhrif. Vægar geðsveiflur | Væg breyting. Flestir ökumenn virðast hrifnæmir. Slæmir ökuhættir geta magnast örlítið |
2-3 |
0,5 |
Væg slökun. Léttlyndi Óþvingaðri hegðun. Auknar geðsveiflur. Örari hreyfingar. Væg skerðing á sjálfvirkum athöfnum | Viðbragðstími lengist verulega |
5-6 |
1,0 |
Stjórn mikilvægra hreyfinga skerðist. Tal óskýrt. Rökhugsun, dómgreind og minni skerðist | Veruleg neikvæð áhrif á dómgreind. Samhæfing hreyfinga skerðist. Erfiðleikar með stjórn ökutækis. |
7-8 |
1,5 |
Alvarleg skerðing líkamlegrar og andlegrar starfsemi. Ábyrgðarleysi. Erfiðleikar með að standa, ganga og tala | Skynjun og dómgreind brenglast verulega. Ekur í þokumóðu og hefur nánast enga stjórn á ökutæki |
15-20 |
4,0 |
Flestir hafa misst meðvitund | Meðvitundarlaus. Viðbragð takmarkað. Ökuhæfni engin – sofnaður – jafnvel dáinn |
Með áfengum drykk er átt við einn 33 cl sterkan bjór eða 2,8 cl af sterku víni
Tafla þessi er fengin af heimasíðu HeilHeim.is