BMW X5 2014
Þeir gerast varla tignarlegri en BMW X5. Nýjasta kynslóðin skartar öllu sínu fegursta og stenst allar væntingar. Gæðatilfinningin sem heltekur mann um leið og sest er upp í bílinn er ávanabindandi og vill maður helst ekki hætta að keyra. Bíllinn er feiknastór á alla kanta og þægindi fyrir fimm farþega eru fyrsta flokks. Stærðin kemur ekki einu sinni að sök þegar leggja þarf bílnum, því bakkmyndavél og skynjarar gera verkið einfalt. Prófaðar voru tvær vélar: 2 lítra, 4 strokka dísilvél og 3 lítra 6 strokka dísil. Krafturinn var ásættanlegur í 2 lítra vélinni, en á móti kom að hvatningin til að keyra hart og hratt dofnaði. Helst langaði mann bara að slaka á keyra rólega. 3 lítra vélin er spræk og hljómar dásamlega í þokkabót. Í akstri kom þó á óvart hversu lipur tveggja tonna jeppinn reyndist vera. Mekanískt grip var mikið og lítið um velting, þrátt fyrir nokkuð mjúka fjöðrun og háa þyngdarmiðju. Að vísu kom á óvart hve óöruggur og óstöðugur bíllinn reyndist á Kvartmílubrautinni, en þar var sökudólgurinn mikið notuð vetrardekk sem áttu ekki roð í blautt malbikið og varla hægt að kenna bílnum um það. Eyðslutölur á meðan reynsluakstri stóð voru fullkomlega ásættanlegar; tæpir 7 lítrar á hundraðið í 4 strokka bílnum og tæpir 8 lítrar á hundraðið í þeim 6 strokka.
Eins og venjan er hjá þýskum lúxusbílaframleiðendum eru nánast allar græjur fáanlegar sem aukabúnaður og því auðvelt að missa sig í peningaeyðslunni þegar kemur að því að panta bílinn. Vitaskuld er verð fyrir svona bíl hátt, en þökk sé lítilli eyðslu og mengun dísilvélanna er hægt að verðleggja bílinn talsvert lægra en búast mátti við – grunnverðið er 10.490.000 kr. Þetta gerir það að verkum að BMW X5 er svipaður í verði og sjálfur Íslandsjeppinn Toyota Land Cruiser.
Kostir:
Rými
Þægindi
Vinnsla véla
Gallar:
Verð aukabúnaðar
Helstu upplýsingar:
Verð: 10.490.000 (I4*) / 12.090.000 (I6**)
Afl: 218 hestöfl (I4) / 258 hestöfl (I6)
Tog: 450 NM (I4) / 560 NM (I6)
Eldsneytiseyðsla I4: 5,9 l/100 km (uppgefin) / 6,9 l/100 km (rauneyðsla)
Eldsneytiseyðsla I6: 6,2 l/100 km (uppgefin) / 7,8 l/100 km (rauneyðsla)
Losun CO2: 156 g/km (I4) / 164 g/km (I6)