Hyundai Santa Fe 2016
Hyundai Santa Fe hefur verið með okkur síðan 2001 og undir lok síðasta árs kom þriðja kynslóðin hingað til Íslands. Þessi hagkvæmi fjórhjóladrifsbíll hefur aldrei verið betri en nú; hann er fjallmyndarlegur og ríkulega búinn staðalbúnaði. Við því mátti þó búast, því grunnverð bílsins er nú 7.650.000 krónur skv. verðlista Hyundai frá janúar 2013. Til samanburðar var grunnverð annarrar kynslóðarinnar 6.890.000 krónur skv. verðlista Hyundai frá október 2011. Verðhækkunin er í takt við nýja stefnu Hyundai sem felur í sér að bæta ímynd merkisins og hækka gæðastaðlana. Sú stefna virðist aldeilis ætla að skila sér, en bíllinn er talsvert myndarlegri en áður. Skarpar línur leggja áherslu á sportlegt útlit, króm áherslur sem finna má hér og þar ásamt LED ljósabúnaðrinum undirstrika að hönnunardeild Hyundai er aldeilis í takt við tímann. Framtíðarkeimur er ríkjandi í innra rými bílsins og verður fróðlegt að sjá hvort sú hönnun muni standast tímans tönn.
Farangursrýmið er stórt og vegna þess að enginn kantur er á gólfinu er auðvelt er að hlaða inn í bílinn. Aftursætin eru niðurfellanleg á „40-20-40“ vegu, þ.e. hvert sæti er niðurfellanegt svo gott sem alveg flatt niður. Aftursætin rýma auðveldlega 3 fullorðna farþega og er m.a.s. hægt að færa þau fram og aftur, hvort sem sóst er eftir auknu fóta- eða farangursrými. Ennfremur er hægt að halla þeim aftur og auðvelda þannig langferðalúra.
Meðal staðalbúnaðar má nefna bluetooth, raddstýringu og fjarlægðarskynjara og fullkomna ipod-tengimöguleika. Mikið magn af aukabúnaði er einnig í boði, t.a.m. þriðja sætaröð, en alla aukahluti er að finna á heimasíðu Hyundai.
Þegar kemur að aksturseiginleikum er einfaldast að lýsa Santa Fe sem fyrirsjánlegum. Ekki má misskilja það sem last, en það er akkúrat sem maður sækist eftir í praktískum fjölskyldujeppling. Afl er ásættanlegt, en aðeins er ein vél í boði; 2.2 lítra, 197 hestafla dísilvél. Eyðslan reyndist vera rétt innan við 8 l/100 km í blönduðum akstri og eru þær tölur vel ásættanlegar fyrir svo stóran bíl. Fjórhjóladrifið er læsanlegt og vinnur vel og heldur manni fram flestum vandræðum sem kunna að leynast utan vega. Stýrið er rafstýrt og stillanlegt eftir akstursaðstæðum; comfort, normal og sport. Undirrituðum þótti best að hafa stillt á normal, þar sem helst til gervileg tilfinning var fyrir stýrinu annars.
Þegar öllu er á botninn hvolft er Hyundai Santa Fe vel að titilnum kominn sem Jeppi/Jepplingur ársins á Íslandi 2013. Í ofanálag er 5 ára verksmiðjuábyrgð á öllum nýjum Hyundai bílum, óháð kílómetrafjölda sem gerir Santa Fe að einhverjum skynsamasta kostinum sem völ er á á jeppamarkaðinum í dag.