Tesla Model 3

Bandaríska fyrirtækið Tesla Motors var stofnað árið 2003 með áherslu á þróun rafbíla og öðrum umhverfisvænum orkulausnum. Tesla Roadster var fyrsti fjöldaframleiddi rafbíllinn frá fyrirtækinu og kom hann á markað árið 2008. Um var að ræða tveggjasæta sportbíl sem var um margt merkilegur þar sem hann var fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn með lithium rafhlöður og einnig fyrsti rafmagnsbíllinn til að hafa yfir 300 km drægni á einni hleðslu. Athugið að þetta er að gerast árið 2008 tveimur árum áður en Nissan Leaf kom á markað með 117 km drægni. Einungis 2450 Roadster bifreiðar voru seldar á þeim fjórum árum sem bíllinn var í framleiðslu en henni var hætt 2012. Sama ár kom Model S á markað og fékk hann mikla athygli þá einna helst fyrir drægni og hröðun. En bíllinn var heldur dýr fyrir hinn almenna neytanda og því ríkti mikil eftirvænting þegar Elon Musk stofnandi og forstjóri Tesla kynnti Model 3 til sögunar sem átti að bjóða allt það besta frá Tesla á viðráðanlegu verði. Um mitt ár 2017 fóru fyrstu bílarnir í afhendingu í Bandaríkjunum og tæpu einu og hálfu ári síðar fóru fyrstu bílarnir í afhendingu í Evrópu.

Haustið 2019 opnaði loks Tesla útibú hér á landi og ekki létu viðbrögðin standa á sér. Þrátt fyrir langan biðtíma eftir afhendingu þá voru allir bílar seldir í fyrstu sendingu sem kom til landsins 6 mánuðum síðar en það var um 300 eintök af Tesla 3.

Að því sögðu þá ríkti mikil eftirvænting hjá undirrituðum þegar komið var að reynslu akstri enda löngu kominn tími á að kynnast því yfir hverju menn voru svo spenntir.

Model 3 kemur í þremur útgáfum og er það „Standard Range“ sem hefur drægni upp á rúmlega 300 kílómetra en þessi útgáfa er sú eina sem kemur eingöngu með drifi á afturöxli. Næst er „Long Range“ sem er með drifi á öllum hjólum og drægni í allt að 560 kílómetra. Að lokum er það dýrasta útgáfan „Performance“ en eins og nafnið gefur til kynna er sá bíll með aukna hröðun, betri bremsur og fjöðrun en þessar breytingar eru gerðar á kostnað drægninar sem fer niður í 530 kílómetra.

Tesla 3 

Reynsluaksturbíllinn var „Long Range“ útgáfan og var hún án allra frekari aukahluta. Aðgangskortið (lykillinn) að bílnum er eins og greiðslukort. Til að opna bíllin þarf að bera það upp að hurðastafnum og síðan er það lagt á milli framsætanna svo hægt sé að ræsa bílinn. Þetta kort er í raun aukalykill að bílnum því eigendur geta notað símann til að framkvæma þessar aðgerðir án þess að þurfa að taka símann úr vasanum.

Að utan

Model 3 er fremur einfaldur í útliti og ekki verið að skreyta hann að óþörfum. Mikil vinna hefur verið lögð í að draga úr allri loftmótstöðu og fyrirstöðum sem geta valdið hávaða í akstri. Bílarnir eru í boði með fimm litum og var viðkomandi bíll fallega perluhvítur. Þakið er úr gleri og svart á öllum útgáfum. Innfeldir hurðahúnarnir vöndust furðuvel en það verður ekki hjá því komist að athöfnin verði klunnaleg við fyrstu opnun. Reynsluaksturs bíllinn er afhentur á fremur óspennandi 18 tommu felgum og plast hjólkoppum. En þegar betur er að gáð þá gegna þessir koppar ákveðnu hlutverki við að draga úr vindmótstöðu og auka drægni. Lítið mál er að kippa þessum koppum af og þá koma í ljós steingráar tíu arma felgur sem fara bílnum einstaklega vel.

Tesla 3 

Það verður ekki litið fram hjá þeim umræðum sem hafa loðað við Tesla bílaframleiðandann varðandi gæðavandamál í samsetningu og þá sérstaklega Model 3. Litamismunur og frávik í samsetningu virðast hrjá bílaframleiðandann og var því sérstaklega litið til þessara hluta á viðkomandi reynsluakstursbíl. Í stuttumáli stóðst bíllinn alla skoðun hvað varðar gæði og frágang.

Að innan

Innréttingunni verður best líst sem einfaldri og lágstemmdri. Ljóst viðarlíki liggur þvert yfir mælaborðið en á því miðju er áfastur fimmtán tommu snertiskjár þar sem allar stillingar bílsins eru framkvæmdar. Stór og djúpur stokkur er á milli framsætanna með miklu geymsluplássi. Plássið í aftursætunum er þokkalegt og ágætlega fer um tvo fullorðna en sá þriðji myndi ekki njóta sýn vel. Mögulega er það stærðinn á rafhlöðunni sem veldur því að gólfið er fremur hátt og minnki fótapláss. Stórt og mikið glerþak gefur góða tilfinningu og stækkar rýmið. En með svo stórum og hörðum fleti koma vandamál sem snúa að hljóðvist því óvenju mikið bergmál er í farþegarými og var það sérstaklega áberandi þegar ökumaður var einn í bílnum og var til dæmis að notast við handfrjálsan búnað. Möguleg lausn á þessu máli er að setja upp net sem fáanlegt sem aukabúnaður og skermir af gluggann. Þá hafa hönnuðir tekið einfaldleikann einu númeri of langt með því að fjarlægja handföng í lofti fyrir farþega. Hiti er í öllum fimm sætum í bílnum og eru framsætin þægileg með fjölbreyttum stillingum. Það kom á óvart að enginn hiti er í stýri eins og er orðinn staðalbúnaður í mörgum nýjum bílum í dag og þá sérstaklega rafmagnsbílum. Því er eykst þörfin fyrir akstur í hönskum á köldum dögum en það skarast á við snertiskjá bílsins sem virkar ekki nema hanskarnir séu sérstaklega gerðir fyrir slíka notkun.

Engar sjáanlegar lofttúður eru í mælaborði og kemur blástur eftir því endilöngu og virkar þetta ágætlega þar sem hægt er að stilla stefnu og kraft á einfaldan hátt úr tölvu bílsins.

Skottið er ágætlega stór og varð enn rýmra þegar lúga í botninum var opnuð og er það því samtals um 425 lítrar. Það gæti valdið smá ergelsi fyrir suma að hlerinn yfir auka rýminu helst ekki opinn. Að framan er einnig smá geymslupláss sem dugir ágætlega fyrir íþróttatösku eða innkaupapoka.

Tesla 3 

Tesla 3

Stjórntæki

Vegna þess hversu frábrugðin Tesla er í raun frá öðrum bílum á markaðnum þykir ástæða til að fara sérstaklega vel yfir stjórntæki bílsins. Tesla er í raun eins og stór tölva þar sem allar stýringar fara í gegnum einn snertiskjá. Notendaviðmótið og gæðinn í skjánum og tölvunni á bakvið hann gerir gríðarlega mikið fyrir alla upplifun af akstri og umgengni við bílinn.

Bíllinn er nettengdur og fylgir tenging frítt tvö fyrstu árin með öllum nýjum bílum. Þannig er hægt að tengjast beint inn á netvafra, nota streymisveitur eins og Spotify og Netflix (þegar bíllinn er ekki í akstri)

Þrátt fyrir það krefjandi verkefni að setja allar stýringar í eitt viðmót þá hefur Tesla tekist það sérlega vel. Ökumaður var fjótur að átta sig á öllum helstu aðgerðum og brást skjárinn sem er úr gleri hratt við öllum snertingum. Í stýrinu voru síðan skrunhjól á hvorri hlið fyrir sig sem voru virkjuð fyrir ákveðnar skipanir í gegnum snertiskjáinn.

Stefnuljósasveifin er enn á sínum stað ásamt rofa fyrir rúðuþurrkur en frekari stýring fyrir þær eins og hraði fór í gegnum snertiskjáinn góða. Hægri sveifinn sá síðan „gír“ skipting.

Tesla 3 

Tesla 3

Akstur

Því verður ekki leynt að Model 3 er einstaklega þæginlegur akstursbíll. Fjöðrun er þétt án aukahljóða en ójöfnur voru aftur á móti full greinilegar og mætti mögulega skrifa það á dekkin. Vindgnauður er í lágmarki en veghljóð var í meira lagi en búist var við og vil ég einnig kenna dekkjunum um þann þátt þar sem þau breið og stíf ásamt því að bergmál í farþega rými gæti einnig virkað sem magnari.

Hröðunin í bílnum er langt umfram það sem maður má venjast úr fjöldaframleiddum bílum en „Long Range“ útgáfan er 4,6 sekúndur í hundraðið og er þetta ekki öflugasta útgáfan.

Í reynsluakstrinum var ekið austur fyrir fjall og gafst gott tækifæri til að prófa sjálfstýringuna. Undirritaður hefur prófað þó nokkuð marga bíla á þessari leið sem hafa skynvædda sjálfstýringu af einhverju tagi en Teslan bar af við þessa prófun. Þannig gat hún haldið stefnu og hraða á akbraut sem var nær ómerkt. Aksturinn var átakalaus og ekkert svig eða rykkir þegar bíllinn hélt sér innan línanna eða skipti um akgrein.

Endurhleðslubremsan var ágæt í bílnum og nær alltaf hægt að aka án þess að þurfa að stíga á bremsuna. Það hefði verið góður kostur ef bíllinn stoppaði alveg niður í 0 og héldi kyrru fyrir á ljósum án þess að tippla í bremsu.

Niðurstaða

Fyrir mig sem áhugamann um bifreiðar og tækni þá er Tesla einstaklega góður og vel hannaður bíll. Bíllinn er góður sem fjölskyldubíll með gott pláss fyrir farþega og farangur. Drægnin er umfram allt sem maður hefur mátt venjast en eftir að hafa tekið við bílnum í 80% hleðslu og ekið honum til vinnu, heim og áfram í gegnum Þrengslin með viðkomu á Stokkseyri, Selfossi og fleiri stöðum þá átti ég enn 180 kílómetra í drægni þegar bílnum var skilað daginn eftir.

Notendaviðmótið fór langt fram úr væntingum og er það greinilegt að ökumaður er í fyrsta sæti þegar kemur að hönnun á stýrikerfi.

Þrátt fyrir að vera með yngri bílaframleiðendum í heimi þá tókst Teslu að skila framúrskarandi árangri í árekstrarprófunum Euro Ncap og fékk fimm stjörnur.

Vissulega er verðmiðinn hærri en margir eru tilbúnir til að eyða í farartæki fyrir heimilið og eru margir frambærilegir rafbílar á markaðnum sem er hægt að fá fyrir um fjórar milljónir. En það virði sem Tesla er að bjóða upp á er umtalsvert og því mikið sem kaupendur fá fyrir peninginn. Vissulega er enginn bíll eða tæki gallalaus en þau fáu atriði sem hægt var að benda á skipta litlu þegar litið er á heildina. Það er á mörgu að taka varðandi þennan bíl og því gott að benda á að þessi umfjöllun er alls ekki tæmandi. Ef þú hefur áhuga á að fræðast frekar um Teslu þá hafa myndast fjöldi áhugahópa um Tesla á samfélagsmiðlum og netinu sem geta gefið aukna og upplýsingar.

Tesla gefur okkur innsýn fjölda ára fram í tímann um hvað það er sem koma skal í hönnun bifreiða og notendaviðmóts.

Kostir: Drægni, staðalbúnaður, notkun

Ókostir: Hljóðvist

Björn Kristjánsson