Mazda CX-30 2019
Það ríkti eftirvænting og tilhlökkun að setjast undir stýri og reynsluaka Mazda CX 30 Sky. Þegar maður er búinn að skoða bílinn vel að innan og koma sér vel fyrir grípur mann góð tilfinning. Hönnunin er til fyrirmyndar, bæði í fram- og aftursætum. Útsýnið er ágætt og ekkert að vanbúnaði að renna af stað og fá úr því skorið eftir bestu getu hvað þessi bíll hefur upp á að bjóða. Það kemur brátt í ljós hvað þessi jepplingur er mjúkur, snöggur og mjög þægilegur í akstri, hvort sem ekið er á vegi með bundnu slitlagi eða á malarvegi. Hönnunarsérfræðingar Mazda hafa greinilega unnið sína vinnu. Í akstri í möl komu greinilega í ljós sterkir eiginleikar bílsins. Undir þeim kringumstæðum stóð bíllinn vel fyrir sínu og þar kom berlega hversu mjúkur hann er.
Rúmt um farþega í aftursætum
Þegar plássið í bílnum er skoðað betur stingur hvað rúmt er um farþega í aftursætum. Þar ætti að fara vel um hávaxinn einstakling, rýmið notalegt og gott útsýni. Þá er vert að geta þess að allt aðgengi að bílnum er gott og þægilegt að setjast inn í hann. Þetta atriði skiptir þá einstaklinga miklu máli sem eiga við stoðkerfisvandamál að stríða.
Stjórntækjum vel komið fyrir
Hvað hönnun bílsins áhrærir er stjórntæki komið fyrir á stokk á milli sætanna og þaðan er öllu stýrt sem kemur upp á skjá á mælaborðinu. Þetta er góð útfærsla fyrst skjárinn er ekki inn í mælaborðinu. Önnur þægindi sem má nefna eru bakkmyndavél, GPS vegaleiðsögn með Íslandskorti, fjarlægðarstillanlegur hraðastillir, blindpunktsaðvörun, lyklalaust aðgengi, 8,8“ skjá, stafrænt mælaborð, framrúðuskjár (head up display) og rafdrifinn afturhlera.Ekki verður hjá því komist að nefna M-hybrid tækni Mazda sem lyftir bílnum á hærra plan. Þetta kerfi er alfarið tölvustýrt og sjálfvirkt, eykur öryggi og kraft bílsins. Fleira mætti telja til.
Skyactive G bensínvélin sérlega vel útfærð
Eins og áður kom fram er ágætis kraftur í bílnum. 122 hestöflin skila sér vel en Skyactive G bensínvélin er sérlega vel útfærð hjá sérfræðingum Mazda sem lögðu mikla vinnu í útfærsluna. Þetta gerir það að verkum að vélin eyðir minna en gengur og gerist. SKYACTIV vél Mazda CX-30 getur einnig slökkt á einum eða fleiri strokki í vélinni til að spara eldsneyti, auknum krafti, meiri afköstum og stjórnun. SKYACTIV-G 2,0 lítra bensínvélin er með hátt þjöppunarhlutfall sem leiðir til minni losunar mengandi efna og betri eldsneytisnýtingu.
Farangursrýmið full lítið
Það er eins með þennan bíl og marga aðra að farangursrýmið mætti vera stærra. Þessi rými voru stærri áður en með tíð og tíma hafa þau minnkað af einhverjum ástæðum. Það er miður því það getur verið ansi snúið að koma farangri niður þegar kannski fimm manna fjölskyldan er að leggja upp í för, hvort heldur er út á land eða út í Leifsstöð.
Góður valkostur – enginn bíll gallalaus
Mazda CX-30 er nýr bíll í jeppalínu bílaframleiðandans og kemur sem viðbót við CX-3 og CX-5 sem hafa slegið í gegn á Íslandi. Mazda CX-30 er búinn nýjustu tækni þar sem áherslan er á góða aksturseiginleika, sparneytni. Um það eru bílagagnrýnendur víðast hvar sammála um. Þess má geta að í nóvember kemur til landsins fjórhjóladrifin bíll sem gerir hann enn álitlegri kost til kaupa. Þegar á öllu er botninn hvolft er enginn bíll gallalaus. Kostirnir sem Mazda CX 30 býr þó yfir eru fleiri en gallarnir. Þetta er tvímælalaust góður fjölskyldubíll, fínn valkostur í það minnsta í ágætis verðflokki.
Mazda CX-30
Aflrás: 2.0 SkyActive Bensín Hámarksafl: 122 hö við 6.000 sn.
Hámarkstog: 213 Nm við 4000 sn.
Verð frá: 4.050.000 kr.
Eldsneytisnotkun (skv. framleiðanda): 5,1 l/100 m.eyðsla
Losun CO2: 116 g/km
Eiginþyngd: 1320 kg
Lengd / Breidd / Hæð (mm): 4.395 / 1.795 (með speglum) / 1.540
Veghæð (mm): 170 mm.
Kostir: Afl, þægindi
Ókostir: Skottpláss