Nissan Juke 2020
Nissan Juke vakti mikla athygli þegar hann kom fyrst á markað fyrir tíu árum og seldist mun betur en framleiðandinn hafði vonað. Í öllum heimsálfum gekk salan afar vel og þá ekki síst í Evrópu. Það er óhætt að segja að fólk skiptist í tvo hópa þegar útlit bílsins er tekið fyrir. Annar hópurinn finnst teikning á bílnum sérlega góð og stingandi en öðrum finnst bíllinn ekki fallegur og grófur, ef eitthvað er. Það ríkti talsverð eftirvænting fyrir annarri kynslóð bílsins, nýjasta módelinu frá 2020, enda voru framleiðendurnir búnir að boða talsverðar breytingar og margir biðu spenntir. Bíllinn, sem tekinn var í reynsluakstur, var af útgáfunni N-Connecta.
Á margan hátt breyst til hins betra
Var biðin þess virði? spyrja eflaust einhverjir. Á margan hátt hefur bíllinn breyst til hins betra og þar vegur mest að rýmið er meira en í gamla bílnum. Fótarými farþega í aftursætinu er meira og eins hefur breidd, lengd og hæð aukist og gerir það bílinn álitlegri kost en áður. Hinu verður ekki breytt að enn er þröngt fyrir þrjár fullvaxna manneskjur í aftursætinu. Ágætlega fer um ökumann en satt best að segja mætti útsýnið vera beittara en of stór spegill dregur úr sýn. Annað rými hefur stækkað töluvert og má í því sambandi nefna skottplásssið sem er nú um 422 lítrar en var áður 354 lítrar. Þar munar um minna og kemur sér vel, sérstaklega á ferðalögum.
Býr yfir ágætis krafti — varadekk í bílnum
Bílnum er hins vegar talið til tekna að hann er hlaðinn tæknibúnaði og er meiri bíll en áður. Notalegt er að vita af hita í framrúðum, veglínuskynjara, regnskynjara og sjálfvirk há/lág ljós svo að dæmi séu tekin. Í bílnum er varadekk sem er gleðilegt og framfaraspor. Mikið öryggi er því samfara. Hann býr yfir ágætis krafti en vélin er 117 hestöfl en hafa verður í huga að þetta módel er 25 kg léttara en hið eldra. Fyrri eigendur Nissan Juke verða örugglega áþreifanlega varir við að fjöðrunin er betri en áður. Bíllinn er sérlega hljóðlátur og hefur fengið hól fyrir góða sjálfskiptingu. Þess má geta að undirvagninn er hinn sami og er undir Renault Clio og Nissan Micra. Vélin er þriggja strokka bensínvél með forþjöppu og vonast framleiðendur til, ef spár ganga eftir, að með hausti verði kominn á markað tengiltvinnbifreið.
Álitlegur kostur til bílakaupa
Það fer ekki framhjá neinum að hönnun bílsins er nútímavædd. Það gefur bílnum svolitla sérstöðu að aftari hurðarhandföng eru fest á bak við gluggana. Öllum má vera ljóst að framleiðendur bílsins hafa lagt sig fram við að hafa þennan bíl öðruvísi og það hefur tekist á mörgum sviðum. Passað er enn fremur upp á öryggið og þar má nefna brekku- og bremsuaðstoð og hemlajöfnun,ekki síst neyðarhemlun sem greinir gangandi og hjólandi vegfarendur. Það gefur ökumanni ákveðna öryggiskennd að vita af blindshornsviðvörun með stýrisaðstoð. Miðað við stærðarflokk og það sem betur mætti fara er Nissan Juke álitlegur kostur til bílakaupa.
Jón Kristján Sigurðsson, apríl 2020
Kostir: Tækni, öryggisbúnaður, fjöðrun. Aflrás: 1.0 3 cylendra turbo bensín |