Ford Focus 2016
Sportbílaflokkur í vali á bíl ársins á Íslandi var með í valinu í ár í fyrsta sinn síðan 2007 og ber því að fagna. Segir það þó meira en nokkur orð um hagvöxt og efnahag sem er í mikilli uppsveiflu í þjóðfélaginu þessa stundina. Ford Focus RS sigraði flokkinn í ár með naumindum, en hinn harðkjarna Volkswagen Golf GTI Clubsport kom honum næstur. Þar sem RS bíllinn er afar sjaldgæfur, þ.e. aðeins eitt eintak var á landinu þegar valið fór fram og var sá bíll þá þegar seldur, er ekki margt hægt að segja um eiginleika bílsins fyrir utan þá frammistöðu sem hann sýndi á akstursbraut Kvartmíluklúbbsins. Ekki náðist að reynsluaka bílnum í „almennri umferð“ og reyna því af alvöru á t.d. bensínseyðslu og þægindi í lengri ferðalögum. Að svo sögðu er bíllinn vissulega ennþá Focus og hefur því feiknastórt skott og rými fyrir alla farþega er hið ágætasta.
Í (kapp)akstri var Focus RS algjört villidýr, enda situr í vélarrúminu mjög forþjöppuð 2,3 lítra fjögurra strokka EcoBoost-vél sem skilar heilum 350 hestöflum til allra fjögurra hjólanna í gegnum 6-gíra beinskiptingu! Sjaldséð ánægja í heimi sem er að verða yfirtekinn af CVT og „dual-clutch“ sjálfskiptingum. Ólíkt fjórhjóladrifs-kerfi á borð við Haldex eins og t.d. Volkswagen notar í Golf R, sem sendir afl að mestu til framhjólanna þar til afturhjólin „þurfa“ afl, þá notar Ford „Twinster“-drifkerfi, hannað af breska fyrirtækinu GKN. Þetta kerfi notar rafstýrða kúplingsdiska við hvort afturhjól og getur því hermt eftir eiginleikum læsanlegs „limited-slip“ mismunadrifs eða sent mismikið afl til hjólanna með vægisdreifingu (e. Torque-vectoring). Vægisdreifingin getur sent allt að 70% aflsins til afturhjólanna og ennfremur allt að 100% af því afli til eins hjóls sé þess þörf! Akstursstillingar eru fjórar: Normal, Sport, Track og Drift. Sú síðastnefnda varð fræg um leið og Ford tilkynnti að bíllinn kæmi með þessa stillingu því aldrei hefur verið boðið upp á þessa stillingu í neinum bíl áður – allavega ekki að nafninu til. Stillingin virkar þannig að dempararnir og stýring er sett í mýkstu stöðu, bremsun á innra framhjóli í beygju verður ögn „aggressívari“ til að koma í veg fyrir undirstýringu, skriðvörnin sett nánast niður í núll og meiri hluti aflsins er sendur til afturhjólanna. Á þennan hátt er merkilega auðvelt að skrensa á þessum fjórhjóladrifna bíl og halda skriðinu á nokkuð þægilegan hátt til lengri tíma. Fyrir hina mest alhliða upplifun er best að hafa bílinn í Sport-stillingu. Þá verður inngjöfin skörp, stýrið stífnar og hægt er að slengja bílnum frá kyrrstöðu í 100 km/klst á einungis 4,7 sekúndum. Gripið er vart trúlegt og var hinn mesti vandi að finna takmörk gripsins. Eðlisávísnunin grípur inn í og segir skynseminni að bremsa fyrr, slá af inngjöfinni fyrr... Jafnvel þótt kvartmílubrautin væri rennandi blaut hélt Focusinn áfram að grípa í malbikið. 350 mm Brembo bremsudiskar að framan og 302 mm að aftan eru sannarlega risastórir, hvað þá þegar hugsað er til þess að þeir prýða „bara“ Focus, en þökk sé þeim er hemlunarmátturinn svo yfirþyrmandi að halda mætti að kjötið myndi rifna af beinunum. Það hvein í forþjöppunni og hnefastóru útblástursrörin hrópuðu kröftuglega við inngjöf en ropuðu eins og örgustu dónar þegar slegið var af og óbrennt eldsneyti sprautaðist á sjóðheit rörin innanverð. Verkfræðingar Ford lögðu einmitt mikið upp úr hljóðblöndun vélarinnar og útblásturskerfisins og leyfðu sér viljandi að búa til þessi fallegu óhljóð.
Ford Focus RS er frábært leiktæki í alla staði og í raun merkilegt verkfræðiundur frá A til Ö. En þegar kemur að því að slaka á og hætta að leika sér ber að hafa í huga að þetta er enn fimm dyra Ford Focus með stórt skott og nægt sætapláss fyrir alla fjölskylduna.
Helstu upplýsingar – Ford Focus RS:
Verð: Frá 6.990.000 kr
Þyngd: 1.569 kg
Afköst vélar 350 hestöfl / 440 Nm
Hröðun frá 0 – 100 km/klst: 4,7 sekúndur
Hámarkshraði: 265 km/klst
Eldsneytisnotkun: 7,7 l/100 km (uppgefin)
Losun CO2: 175 g/km
Róbert Már Runólfsson