Nissan Qashqai

Nýr og mjög athyglisverður jepplingur af þriðju kynslóð Nissan Qashqai er kominn til landsins. Það er ekki ofsögum sagt að þessi bíll hefur verið eitt af flaggskipum japanska bílaframleiðandans frá því að hann kom fyrst á göturnar 2007. Um þrjár milljónir eintaka hafa selst frá upphafi í Evrópu.

Nissan Qashqai front

 

Nýi bíllinn hefur nú þegar fengið góðar viðtökur hér á landi og í Evrópu. Mjög góð sala hefur verið á bílnum víðast hvar. Bíllinn hefur tekið töluverðum breytingum með hverri kynslóðinni en fæst eins og áður bæði fram- og afturhjóladrifinn. Qashqai hefur með tíð og tíma tekið miklum breytingum í útliti, í tæknibúnaði og meiri rými og þá alveg sérstaklega með nýjustu útgáfunni sem kom á markað fyrir skemmstu.

 

Nissan Qashqai front2

Athygli vakti þegar hönnun bílsins hófst að ákveðið var að fara inn á nýjar brautir við hönnun hans. Skoðunarkönnun var sett á laggir á meðal eigenda Qashqai og þeir spurðir hvaða breytingar þeir vildu sjá við gerð hönnun bílsins. Þetta fékk góð viðbrögð hjá eigendum og var reynt að komast til móts við óskir þeirra eins og kostur var.

 

Nissan Qashqai back

 

Í reynsluakstur var tekinn fjórhjóladrifinn bíll af gerðinni Tekna. Vélin er 158 hestafla 1.3 DIG-T bensínvél. Hún er með forþjöppu sem er boðin í tveimur útfærslum, annars vegar sex gíra beinskiptingu og hins vegar 7 gíra sjálfskiptingu og með fjórhjóladrif. Umræddar vélaútfærslur eru með mildari tvinntækni sem eykur eldsneytisnýtingu, snerpu úr kyrrstöðu og aðstoð upp brekkur til að lágmarka eyðslu og draga úr losun CO2 um 4g á ekinn km. Þessi vél kom fyrst fram á sjónarsviðið 2018 en hefur nú verið þróuð áfram með nýjum tæknilausnum til enn bættra afkasta og skilvirkni.

Acenta kemur aðeins framhjóla-drifinn eins og áður. Tekna, Tekna+ og N-Connecta eru aftur á móti með fram- og afturhjóladrif. Allar útgáfurnar eru vel útbúnar, bæði með öryggi og þægindi í huga. Akstur á malarvegi var þægilegur og góð fjöðrun kom berlega fram. Bíllinn lá vel á veginum og aksturinn allur mjúkur og veitti ökumanni góða tilfinningu. Þetta kom glögglega fram í akstri á malarvegi.

Útlitsbreytingar

Þessi kynslóð er með nokkrar útlitsbreytingar sem stinga og breyta bílnum töluvert. Má í því sambandi benda á framhlutann með nýja V-Motion grillið og C-laga díóðuljósin. Nudd er í framsætum en slíkt hefur ekki verið til staðar áður og afturhlerar eru með rafknúnum afturhlera með snertilausri opnun svo að eitthvað sé nefnt. Gott rými er í aftursætum og fer sérlega vel um farþega þegar fótarýmið er haft í huga. Bíllinn býr einnig yfir nýjum og lengri undirvagni og hann er breiðari og yfirbyggingin hærri. Þá er vert að geta þess að bíllinn er léttari en áður enda eru hurðar, frambretti og vélarhlíf úr áli í stað stáls. Athygli vakti breytingin með afturhurðina farþegamegin sem opnast nú um 90° sem er kostur út af fyrir sig.

 

Nissan Qashqai boot

 

Breytingar hafa verið gerðar á mælaborðinu en þar hefur verið komið fyrir 11“ framrúðuskjá með völdum upplýsingum. Við miðjustokkinn er nýr 9“ upplýsinga- og afþreyingarskjár með afar notendavænu viðmóti og samhæfingu við Android Auto og Apple CarPlay auk þess sem Google Street View er í boði og app í símann til að breyta stillingum bílsins úr fjarlægð.

 

 

Nissan Qashqai dash

 

Fjórar gerðir Qashqai

BL býður nýjan Nissan Qashqai í fjórum mismunandi búnaðarútfærslum: ríkulega búnu grunnútgáfunni

Acenta, sem kostar frá 4.690.000
N-Connecta sem kostar frá 5.590.000
Tekna sem kostar frá 5.990.000
Tekna+ sem kostar frá 6.290.000.

Til dæmis um öryggisstaðalbúnað Acenta, sem ekki eru í fyrri árgerðum, má nefna sjálfvirka neyðarhemlun sem skynjar bíla, gangandi vegfarendur og hjól, vegaskiltisnema, akreinavara og -stýringu, neyðarbremsuaðstoð, aðvörun á hliðarumferð, blindhornaviðvörun, skynvæddan hraðastilli, sjálfvirka skiptingu milli háa og lága ljósageislans og bakkskynjara með árekstrarvara.

Nissan Qashqai er mörgum kostum gæddur. Þar sem greinarhöfundur er Qashqai–eigandi er þessi nýi bíll mjög álitslegur kostur í bílakaupum. Bíllinn er línulegur og ný hönnun hans hefur að mörgu leyti heppnast vel. Farþega- og farangursrými hefur aukist til muna sem er stórt skref í því að gera bílinn enn fjölskylduvænni en áður.

Jón Kristján Sigurðsson, okt. 2021

Kostir: Rými, aksturseiginleikar
Ókostir: Staðsetning margmiðlunarskjás

Grunnverð: 4.690.000 kr.
Afl: 158 hestöfl
Rúmtak: 1.332 cc
Tog: 270 nm
Hámarkshraði: 198 km/klst.
Eyðsla bl. ak: 6,2 l/100 km
CO2: 158 g/km
Farangursrými: 475 lítrar
L/B/H: 4.425/2.084/1.625 mm
Hjólhaf: 2.665 mm
Eigin þyngd: 2.040kg
Dráttargeta: 750/1800 kg.