Volkswagen Passat 2015
Volkswagen Passat, þá með vél sem gekk bæði fyrir bensíni og metani, sigraði valið á bíl ársins á Íslandi árið 2012. Nú sigraði Passatinn, þó án metan-útfærslu, flokk stærri fólksbíla. Til reynslu voru annars vegar 1,4 TSI bensínbíll í Comfort line útfærslu og hins vegar, í brautarakstri á nýrri braut Kvartmíluklúbbsins 2,0 TDI 4Motion Bi Turbo í Highline útfærslu. Tekið skal fram að ekki er tekið tillit til hins svokallaða „svindlbúnaðar“ í dísilvélum VW þar sem allur reynsluakstur fór fram áður en hneykslið uppgötvaðist og fjallað er um málið ítarlega annars staðar í blaðinu. Bílunum verður aðeins lýst út frá minni upplifun á þeim tíma sem þeim var ekið.
Bíllinn er byggður á hínum títtnotaða MQB undirvagni frá Volkswagen samsteypunni, en dæmi um aðra bíla á þessum undrvagni eru Audi A3 og TT, Skoda Octavia og Superb og VW Golf og Tiguan. 1,4 TSI vélin í reynsluakstursbílnum er að flestu leyti sú sama og sú sem var í sigurbílnum fyrir fjórum árum, en er enn hagkvæmari þar sem nú getur hún slegið út tvo af fjórum strokkum meðan á áreynslulitlum akstri stendur og sparar þannig talsvert eldsneyti. Í akstri var nýji Passatinn alls ekki svo frábrugðinn forveranum, innréttingin svipuð og þægindin áþekk því sem maður hafði vanist áður. Ekkert af því eru slæmir hlutir út af fyrir sig þar sem ekkert var hægt að setja út á þau atriði á sínum tíma. Bíllinn lét vel af stjórn í beygjum og aflið nægt. Hljóðeinangrun var til fyrirmyndar, sætin veittu góðan stuðning og voru þægileg á sama tíma og farangursrými feiknarstórt. Í skutbílsútfærslunni, Variant, er farangursrýmið 650 lítrar og stækkar upp í heila 1.780 lítra með aftursætin lögð niður. Þessi mál eru með þeim stærstu í flokki millistærðar skutbíla. Nægt höfuð- og fótarými er fyrir farþega aftursætanna ásamt því sem fjöldinn allur af geymsluhólfum og glasahöldurum prýða farþegarýmið. Skemmtilegra hefði þó verið að sjá fleiri nýjungar í innra rými bílsins svo maður væri nú minntur á það um glænýjan bíl væri að ræða því í akstri er hann mjög áþekkur þeim gamla. Helstu breytingar fólust í útliti bílsins að utanverðu, sem enn er nokkuð bragðdauft, ásamt aragrúa af tæknibúnaði, bæði til að tryggja öryggi og þægindi ökumanns. Má þar nefna árekstrarvörn, myndavélar (að framan og aftan), bílastæðaaðstoð, bakkaðstoð fyrir tengivagn ásamt vegfarendavara. Þess má geta að í milli-útfærslunni, Comfort line, kemur t.a.m. árekstrarvörn, bakkmyndavél og nálægðarskynjarar sem staðalbúnaður.
Eins og áður segir var fjórhjóladrifna, tveggja lítra, tveggja forþjöppu dísilbílnum ekið á Kvartmílubrautinni. Erfitt er að fjalla um hann í sömu grein og „venjulegan“ Passat, þar sem þetta er hálfgert skrímsli með heil 240 hestöfl og fáránlega 500 Newton-metra af togi. Samspil fjórhjóladrifsins, togsins og nær óaðfinnanlega DSG gírkassans slengir bílnum frá 0-100 km/klst á aðeins 6,3 sekúndum. En á meðan grunnútfærsla VW Passat kostar frá 3.990.000 kr. er grunnverð Bi Turbo bílsins 7.254.444 kr. skv. verðlista Volkswagen fyrir septembermánuð 2015.
Þegar öllu er á botninn er Volkswagen Passat afar skynsamur kostur og góður bíll í alla staði; þægilegur, sparneytinn og hinn ágætasti akstursbíll. Fagurfræðilega séð hefðu hönnuðir Volkswagen mátt leggja harðar að sér, en mega að öðru leyti vera mjög stoltir af sigurvegaranum í flokki stærri fólksbíla á Íslandi 2016.
Helstu upplýsingar (Comfort Line):
Verð: Frá 4.550.000 kr / 4.700.000 kr (Variant)
Afköst vélar: 150 hestöfl / 250 Nm
Eldsneytiseyðsla: 5,1 l/100 km (uppgefin) / 7 l/100 km (rauneyðsla)
Losun CO2: 117 g/km
Kostir:
- Afköst véla (afl og sparneytni)
- Heilsteypt yfirbragð
- Rými og notagildi
Ókostir:
- Ekki nægilega breyttur frá fyrri kynslóð
- Bragðdauf útlitshönnun