Peugeot 308 2014
Hinn nýji Peugeot 308 hefur tekið miklum breytingum umfram þann sem hann kemur í staðinn fyrir, útlitslega sem og tæknilega. Hið gapandi framgrill víkur fyrir minna og stílhreinna grilli, LED-ljós eru staðalbúnaður í efri útfærslum og öll hlutföll ytra byrðis samsvara sér vel og skapa þannig stílhreint og heilsteypt útlit. Svo skal tekið fram að Peugeot 308 var nýverið valinn bíll ársins í Evrópu.
Peugeot 308 er afar rúmgóður í alla staði og talsvert rýmri en áður. Farangursrými er feiknar stórt og aðgengi þess auðvelt, þó aftursætin falli ekki alveg flöt niður. Stærð farangursrýmis tekur nokkuð pláss frá farþegum aftursæta samanborið við t.a.m. Bíl ársins á Íslandi 2014, Skoda Octavia, en þó er rýmið nægt til að sæmilega fari um þrjá farþega.
Efnisnotkun er, líkt og svo oft áður í frönskum bílum, ekki hin besta í innra rými bílsins og áferð efna í kringum mælaborð og miðstokk ódýr. Reynsluakstursbíllinn var búinn stórum margmiðlunar-snertiskjá sem sá um flestar skipanir bílsins og hýsti m.a. fullkomið leiðsögukerfi með Íslandskorti. Svörun skjásins var þó heldur sein og skipanir oft óþarflega flóknar. Með „minimalískri“ hönnun að innan eru nær allir takkar fjarlægðir úr mælaborði og færðir í margmiðlunarskjáinn; þar á meðal miðstöðvarstillingarnar sem reyndu nokkuð á þolinmæði höfundar til lengdar.
Í akstri slær Pusjóinn í gegn með sinni getu og þægindum. Stýrið er lítið, sportlegt og nákvæmt, þótt næmni fyrir veginum í gegnum það sé á undanhaldi. Fjöðrunin er afar vel heppnuð; mýkri en í gamla bílnum en þó stöðug og heldur bílnum tiltölulega flötum í beygjum. Á sama tíma er bíllinn fullkomlega þægilegur yfir hvers kyns ójöfnur borgar- og þjóðvega. Þessa dýnamísku aksturseiginleika má rekja til 140 kg þyngdartaps umfram gamla bílinn og fágaðri útfærslu á hönnun fjöðrunarinnar. 1.6 lítra, 116 hestafla dísilvélin togaði vel og voru gírskiptingar mjúkar og fyrirgefandi, sama hversu illa reynt var að skipta um gír. Vélar- og veghljóð reyndust svo í algjöru lágmarki – einn af athyglisverðustu eiginleikum bílsins – og bíllinn greinilega vel smíðaður (við fyrstu kynni). Vonandi helst bíllinn jafn vel skrúfaður saman í gengnum árin og stuðlar þannig að bættri ímynd franskra smíðagæða!
En ef það er eitthvað sem má hrósa frönskum bílaframleiðindum fyrir þessa dagana, þá er það eldsneytiseyðsla og losun gróðurhúsalofttegunda – eða réttara sagt, skortur á hvoru tveggja. Meðaleyðsla á meðan reynsluakstri stóð var vægast sagt ótrúleg, eða rétt tæpir 5 lítrar á hverja 100 km. Uppgefin eyðsla upp á 3.7 l/100 km er að vísu nokkuð fjarri rauninni sem kemur ekki á óvart þegar miðað er við varfærinn akstursmáta við kjöraðstæður. Ennfremur er losun CO2 tveggja útfærslna vel innan við 120 g/100 km og má því leggja þeim frítt í miðborginni í 90 mínútur.
Á heildina litið er hinn nýi Peugeot 308 vel heppnaður bíll og vel að titli sínum kominn sem bíll ársins í Evrópu. Því má með sanni segja að hann sé verðugur keppinautur í vali á bíl ársins á Íslandi í ár, en úrslit verða kynnt í september.
Róbert Már Runólfsson
Kostir:
- Hljóðlæti
- Eldsneytiseyðsla
- Aksturseiginleikar
- Farangursrými
Gallar:
- Svifaseinn snertiskjár
- Efnisval
Helstu upplýsingar:
Verð: Frá 3.360.000 kr til 4.490.000 kr (bensín) og frá 3.660.000 kr til 4.190.000 kr (dísil)
Afl: Frá 82 til 156 hestöfl (bensín) og frá 92 til 116 hestöfl (dísil)
Tog: Frá 118 til 240 nm (bensín) og frá 230 til 285 nm (dísil)
Eldsneytisnotkun í blönduðum akstri [l/100 km]: Frá 5,0 til 5,6 (bensín) og frá 3,6 til 3,7 (dísil)
Losun CO2 [g/km]: Frá 114 til 129 (bensín) og frá 93 til 95 (dísil)