VW ID. Buzz

rh_object-592

 

Í lok ágústmánaðar var haldin kynning í Kaupmannahöfn á vegum VW þar sem blaða- og sölumönnum var boðið að koma og kynna sér nýja útgáfu VW af einu þekktasta farartæki bílasögunnar.

Fyrsti VW Transporterinn kom til sögunnar 1949 og var þá búinn 25 hestafla lofkældum mótor sem skilaði bílnum einungis tveggja stafa hámarkshraða. Bíllinn hefur gengið undir mörgum nöfnum milli landa en við Íslendingar þekkjum hann líklegast best sem VW Rúgbrauð sem er bein tilvísun í byggingarlag bílsins. Rúgbrauðið hefur selst gríðarlega vel allt frá byrjun og boðist í fjölmörgum útgáfum m.a fólks- hús- eða sendibíll.

Uppbygging

ID. Buzz er byggður á MEB grunninum frá VW sem má finna undir flestum rafbílum sem VW Group framleiðir. Við fyrstu kynni kemur á óvart hversu stuttur bíllinn er miðað við ljósmyndir sem höfðu birst af honum. Heildarlengd bílsins er um 4,7 metrar sem er á pari við Tesla Y og tæpir tveir metrar að breidd að speglum undanskildum. Þar sem bíllinn er hannaður frá grunni sem rafbíll hafa hjólin verið staðsett töluvert utar en við eigum að venjast og er hjólhafið tæpir þrír metrar sem skilar auknu inn rými .

Modular electric drive matrix (MEB)

Fyrst um sinn verður bíllinn eingöngu í boði með 77 kWh rafhlöðu sem skilar akstursdrægni á bilinu 402 til 423 km við góðar aðstæður. Hleðslugeta á heimahleðslu er allt að 11 kW en á hraðhleðslu á hann að geta tekið allt að 170 kW inn á sig. Það þýðir að bíllinn ætti að geta tekið hleðslu frá 5% upp í 80% á aðeins 30 mínútum sem þykir gott og getur skipt sköpum við atvinnutengda notkun.

Útlit

Eins og fyrr segir á VW rúgbrauðið sér langa og merkilega sögu og því mikil pressa á hönnuði að tvinna saman einkennandi útliti 70 ára kassabíls og nýs rafmagnsbíls sem þarf að standast nútímakröfur og útlit. Í stuttu máli virðist það hafa heppnast nokkuð vel, mikil áhersla er lögð á að fjölbreytt litaval. Eitt  sérkenni fyrri gerða voru litirnir. Hvítur var ráðandi litur fyrir ofan miðju og  kom niður í „V“ á framenda bílsins. Neðri hluti bílsins var oftar en ekki í djörfum og björtum litum. Litir vega þungt í hönnun og kynningu á bílnum jafnt að innan sem utan. Fram- og afturljós eru ílöng og tengjast saman með ljósalínu sem er í takt við aðra ID. bíla VW. Feikna stórt VW merki er fyrir miðju að framan og aftan sem er bein tilvísun í fyrstu rúgbrauðin sem báru merki á stærð við meðalstóra flatböku.

VW ID.Buzz front back

Að innan

Að innan er bíllinn feikna bjartur og rúmgóður. Óvenju fjölbreytt úrval er af innréttingum í hinum ýmsu litum. Flestir voru prufubílarnir með blöndu af ljósgráum tónum og litum í takt við ytra byrði bílsins. Ökumaður og farþegar sitja hátt og hafa góða yfirsýn sem má þakka stórum gluggum. Fyrst um sinn verður eingöngu boðið upp á tvær útgáfur þ.e. fimm manna bíll og sendibíll. Gott pláss er fyrir alla farþega og vel fer um þrjá fullorðna í aftursætunum. Aftursætin eru tvískipt 60/40 á sjálfstæðum sleðum.  Sætin geta færst framar til að auka farangursrými. Í þeim bílum sem voru til prufu var armpúði milli sæta ekki í boði. Undirritaður teldi æskilegt að hafa val um  þrískiptan bekk (40/20/40) þar sem mögulegt væri  að fjarlægja miðjusætið sem aftur býður upp á tækifæri til að flytja lengri hluti á sama tíma og farþegar gætu setið í sjálfstæðum sætum. Síðar verður boðið upp á 6 manna útgáfu og verður þá miðju- og aftastaröðin byggð á sjálfstæðum sætum. Einungis er boðið upp á tvær iso-fix festingar í bílnum þ.e. hægri og vinstri í aftursæti sem kemur á óvart þar sem nægt pláss virðist vera fyrir þriðja barnabílstólinn og bíllinn áhugaverður valkostur fyrir barnafjölskyldur.

VW ID.Buzz inside

Í þeim bílum sem voru til prufu var ekki sjálfstæð miðstöð fyrir aftursæti sem er miður sérstaklega með tilliti til þess að engir opnanlegir gluggar eru í boði fyrir utan framrúður. Síðar verður bíllinn í boði með glerþaki  án opnunar. Undirritaður telur að þessir ókostir gætu haft áhrif á kaupákvörðun og verður að telja líklegt að  VW komi  með aukna valkosti þegar fram í sækir.

Framsætin í bílnum eru einstaklega þægileg og vel er hugað að umhverfi ökumanns. Prufubílarnir  voru með armpúða jafnt vinstra og hægra megin  sem eykur þægindi og þá sérstaklega fyrir atvinnubílstjóra. Nóg er af hólfum í mælaborði og rúmgóð hirsla er á milli framsætanna sem er einnig hægt að fjarlægja með einu handtaki. Eflaust mun ýmis aukabúnaður verða í boði í stað stokksins s.s. kælibox eða samanbrotið vinnuborð fyrir ökumann og farþega.

VW ID.Buzz drive

Í farþegarýminu er fjöldinn allur  af usb-c tenglum eða átta úrtök og athygli vekur að hleðslugetan getur verið allt að 45 vött sem dugir ágætlega til að hlaða stærri raftæki eins og fartölvur. Þá er hægt að fá sem aukabúnað 230V.  úrtak sem er aðgengilegt undir farþegasæti. Þessi möguleiki getur verið mikill þægindaauki sérstaklega í atvinnustarfsemi þar sem  hlaða þarf margvísleg  tæki.

VW ID.Buzz usb

Farangursrými í fimm manna útgáfunni er ríflegt eða 1121 lítrar með sætin uppi og 2205 lítrar með sætin lögð niður. Hægt er að fá bílinn með fölsku gólfi í farangursrými og eyða þannig út þeirri mishæð sem aftursætin mynda þegar þau eru lögð niður. Við það verður farangursrýmið slétt alla leið og auðveldar hleðslu til muna.

VW ID.Buzz inside

Einnig er mögulegt að fjárfesta í einskonar útileguboxi sem er sett aftast í bílinn. Ofan á boxinu er samanbrotin dýna á rúmgrind sem hægt er að draga út og búa þannig til svefnpláss fyrir 2 fullorðinna. Þá er einnig innbyggt í boxið eldunaraðstaða ásamt geymsluplássi fyrir ýmsan viðlegubúnað.

VW ID.Buzz camping

Sendibílaútgáfan kemur með flötu gólfi sem rúmar tvær pallettur. Burðargetan hækkar um tæp 120 kg frá fimm manna bílnum og stendur í 648 kg sem er þokkalegt og ætti að nýtast flestum í daglegum rekstri. Þá verður einnig í boði að velja um einfalt eða tvöfalt farþegasæti hjá ökumanni. VW ID.Buzz cargo

Hægt er að fá innbyggðan dráttarkrók á bílinn en dráttargetan er 1000 kg.

Stjórntæki

Stjórntækin eru í takt við aðra ID bíla frá VW, 10-12“ skjár (eftir útgáfu) er fyrir miðju mælaborði þar sem allar helstu framkvæmdir fara fram og síðan er minni skjár áfastur við stýrisgang og fylgir hann því stýrinu sama hvaða hæðarstilling er á því og mættu fleiri framleiðendur taka sér það til fyrirmyndar þar sem stýrið getur skyggt á skjái sé það fært upp eða niður.   

Akstur

Þegar kemur að akstri er bíllinn einstaklega þægilegur með gott útsýni til allra átta, góð svörun er í stýri sem heldur vel við með auknum hraða. Þetta er ekki léttur bíll með eigin þyngd 2470 kg sem dreifist jafnt yfir allan bílinn þökk sé rafhlöðunum sem liggja í botni bílsins og auka þar með stöðugleika bílsins sem er  1,93 m á hæð. ID. Buzz verður fáanlegur á 18“ til 21“ felgum eftir útgáfu og var prufubíllinn á 20“ felgum sem gáfu honum frábært hliðargrip miðað við stærð bílsins. Dekkin fyrirgáfu ekki  ójöfnur í veginum sem fjöðrunin  vann úr  hljóðlega og skammarlaust. Það var ánægjulegt að sjá stóra og góða hliðarspegla á bílnum sem sýndu vel til hliðanna. Það hefur verið tilhneiging rafbílaframleiðenda að draga úr stærð spegla til að lækka vindmótstöðu bílsins en sem betur fer var það ekki raunin að þessu sinni.

VW ID.Buzz wheel

Bíllinn skilar sér þokkalega áfram þrátt fyrir þyng og er skráður 10.2 sekúndur í hundraðið. Það að vera rafdrifinn gerir aksturinn mun skemmtilegri þegar verið er að aka innanbæjar með gott viðbragð og viðstöðulaust tog og ekki skemmir góður beygjuradíus upp á aðeins 11 metra.

Uppgefin drægi á bílnum er á bilinu 402 til 423 km eftir aðstæðum en fyrstu bílarnir verða eingöngu í boði með 77 kwh rafhlöðu. Hleðslugeta bílsins á heimahleðslu er allt að 11 kW en á hraðhleðslu á hann að geta tekið allt að 170 kW inn á sig. Það þýðir að bíllinn ætti að geta tekið hleðslu frá 5% upp í 80% á aðeins 30 mínútum sem þykir ágætt og getur skipt sköpum við atvinnutengda notkun á bílnum.

VW ID.Buzz charging

Niðurstaða

ID. Buzz er spennandi nýjung á rafbílamarkaðnum og verður forvitnilegt að sjá hvernig kaupendahópurinn mun þróast. Þessi bíll er auðveldur í umgengi og akstri með umtalsvert meira notagildi en þeir „jepplingar“ sem hafa verið hvað vinsælastir seinustu ár. Hafa verður í huga að þetta er fyrsta rennslið frá VW og eiga menn mikið eftir í verkfærakistunni til að aðlaga bílinn að hverjum notendahóp fyrir sig. Þetta er án efa góður kostur sem atvinnubíll þar sem vinnusvæði ökumanns hefur verið vel ígrundað. Drægi er ágætt og hafa atvinnubílstjórar látið ágætlega af öðrum VW bílum sem sömu driflínu.

Bíllinn lofar góðu og býður undirritaður spenntur eftir fleiri útgáfum eins og húsbílabreytingu frá Westfalia, aukahlutum frá VW og öðrum framleiðendum ótengdum þeim.

Á komandi árum er von á lengri útgáfu, fjórhjóladrifi og frekari fjölbreytni af rafhlöðum og mótorum.

 

Grunnverð: 8.790.000 kr.
Afl: 204 hestöfl
Tog: 310 nm
Rafhlaða: 77 kWh.
Drægni WLTP: 402 - 425 km
Blönduð eyðsla: 22,2 - 20,5kWh/100 km
Farangursrými: 1,121 - 2,205 lítrar
L/B/H: 4.712/2,212/1,927 mm
Hjólhaf: 2.989 mm
Eigin þyngd: 2.471 kg
Dráttargeta: 1000 kg.