Rafbílavæðingin


FÍB Blaðið 1. tbl. 2017
Rafbílavæðingin

Á fjölmennri ráðstefnu um rafbílavæðinguna sem Samtök rafverktaka og Samtök iðnaðarins stóðu fyrir á Grand Hótel í mars 2017, kom fram að mjög spennandi hlutir eru að gerast tengdri rafbílavæðingunni á næstu árum.

Nokkur áhugaverð erindi um þetta mál voru flutt á ráðstefnunni og heilt yfir er ljóst hve þjóðhagslega hagkvæm rafbílavæðingin væri. Stjórnvöld yrðu að koma til móts við þetta verkefni með því að lækka skatta svo almenningi verði gerður kostur á að fjárfesta í rafbíl en fram kom þó að verð á þessum bílum hefur farið lækkandi síðustu misseri. Setja verði langtíma markmið og aðgerðir til að tryggja þetta.

Fram kom einnig að fyrir 2020 hefur Ísland skuldbundið sig til að 10% bíla verði knúnir vistvænni orku en í dag telur bílafloti landsmanna um 240 þúsund bíla og er meðalaldur þeirra 10,6 ár. Ljóst er að rafbílavæðingin tekur áratugi og núverandi bílafloti verði áfram í notkun í mörg ár til viðbótar.

Góð skipulagning og samvinna skiptir miklu máli

Við skipulag nýrra byggingasvæða verður að gera ráð fyrir góðu aðgengi rafbíla sem ekki er til staðar víðast hvar í dag. Að mörgu þarf að hyggja í þessari væðingu sem á eftir að vaxa mikið á næstu árum. Fram kom á ráðstefnunni að brýnt væri að allir aðilar sem kæmu að þessari uppbyggingu ynnu vel saman. Góð samvinna og skipulagning skipti afar miklu máli í þessu verkefni.

Þá upplýstu fulltrúar frá Reykjavíkurborg að stefnt sé að því að borgin ætli að setja upp 58 hleðslustöðvar á 13 stöðum í miðborginni. Þetta er aðgerð sem miðar að því að yfirvöld í borginni ýti undir rafbílavæðingu hér á landi.

Borgin hefur fengið 11 milljóna króna styrk frá Orkusjóði til að fara í þessa uppbyggingu en borgin leggur síðan á móti sömu upphæð til kaupa á þeim búnaði sem þarf. Ennfremur kom fram ON og N1 áforma að setja upp fjölda hleðslustöðva víðs vegar um landið en talið er að 90-95% núverandi dreifispenna ráði við fulla rafbílavæðingu. Styrkja þarf stofnkerfi á ákveðnum stöðum eftir því sem þörf kemur fram og heimtaugar í fjölbýli stækkaðar í takt við vaxandi þörf.

Böðvar Tómasson, fagstjóri og verkfræðingur hjá Efla verkfræðistofu, flutti áhugavert erindi um rafbílavæðinguna á ráðstefnunni sem fjallaði m.a. um rafbílahleðslu í þéttbýli og stöðuna í því verkefni sem fram undan er. Böðvar hefur verið að vinna að ýmsu sem lítur að rafbílavæðingunni og vann nýlega greinagerð um stöðumat og verkefni varðandi rafbílavæðinguna fyrir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Hann hefur ennfremur verið að gera ýmsar úttektir og hanna hvernig rafbílahleðslur er fyrir komið í bílageymslum með tilliti til öryggismála og brunavarna. Enn fremur vann hann fyrstu skilgreiningarnar á kröfum til rafbílahleðslu í deiliskipulagi, bæði fyrir Kirkjusandsreit og Vísindagarða í Vatnsmýrinni.

Böðvar segir alveg ljóst hvað rafbílahleðsluna áhrærir að ráðast verði í mörg verkefni og eru hraðhleðslustöðvarnar eitt af þeim. Uppbygging nets hraðhleðslustöðva er komin á gott  skrið en að sjálfsögðu þurfum við að halda áfram. Annað verkefni snýr að því að fólk geti hlaðið þar sem það er praktískt og flestir vilja geta gert það heima hjá sér. Þar eru bílarnir til lengri tíma, yfir nótt, og það er því eðlilegt að fólk geti hlaðið sína bíla heima.

Gert sé ráð fyrir rafbílahleðslu í skiplagi og hönnun bygginga

„Það eru ákveðin vandamál til staðar varðandi þennan hleðslumöguleika í dag þar sem alls ekki allar nýbyggingar hannaðar til rafbílahleðslu. Það verður að teljast ákveðin galli. Þegar fólk er að fara inn í framtíðina og kaupa sér rafbíl þá getur það staðið frammi fyrir því í dag að ekki sé hægt að hlaða nema lítið hlutfall bíla í bílageymslunni. Það er mjög bagalegt og við þurfum virkilega breyta því þannig að hús verði byggð með réttum hætti hvað þetta varðar. Markmiðið er að hægt verði að tryggja hleðslu rafbíla án mikils kostnaðar fyrir þá sem þess óska. Það er einungis hægt með því að huga að innviðum rafbílahleðslu frá byrjun. Það gerir náttúrlega kröfu á hönnuði, verkkaupa, byggjendur og alla aðila sem að þessu koma.

Til að leiðrétta þetta vandamál legg ég til að rafbílahleðsla verði einnig tekin upp á skipulagsstigi. Með því að gera ráð fyrir því strax á skipulagsstigi er betur tryggt að rafbílahleðsla verði meðhöndluð síðar í hönnunarferlinu.

Einnig gefur það betri yfirsýn fyrir veitufyrirtæki varðandi skipulag dreifikerfis, aflþörf fyrir viðkomandi reit og fyrir stærra svæði. Kröfur varðandi hleðslu rafbíla hefur m.a. áhrif á orkuflutning til svæðisins, plássþörf og uppbyggingu innviða rafmagnsdreifingar, útfærslu bílastæða og samgangna og gefur framtíðar notendum upplýsingar um útfærslu svæðisins varðandi vistvænar samgöngur.  

Í deiliskipulagi geta menn verið að setja fram kröfur til rafbílahleðslu m.v.  hvernig reiturinn er samsettur, hvernig blöndun er á starfsemi á reitnum og svo framvegis. Ef um er að ræða fjölbýlishúsabyggð þá erum við að fá fram toppa notkunar á ákveðnum tímum en í blandaðri byggð getum við reiknað með að rafmagnsnotkunin dreifist betur, sem hefur áhrif á dreifikerfið,“ segir Böðvar.

Hagkvæmt fyrir kerfið að rafbílahleðsla aukist

Böðvar segir áhugavert sem fram hafi komið í erindi frá Veitum á ráðstefnunni að í heildina sé það mjög hagkvæmt fyrir dreifikerfið að rafbílahleðsla aukist vegna þess að það nýtir kerfið betur. Það er stórt hlutfall rafbílaeigenda sem hleður bílana sína á nóttinni á meðan það er þá lítil notkun annars staðar. Þetta hefur auðvitað áhrif á hámarkstoppa rafmagnsnotkunar, sem koma t.d. þegar fólk kemur heim á daginn og stingur bílnum í samband. Það hefur áhrif á uppbygginguna á kerfinu að einhverju leyti líka. Það þarf einhvers staðar örugglega að spýta í og hafa dreifikerfið aðeins öflugra og byggja það upp með tilliti aukinnar rafbílaeignar.

 Oft mikill skortur á afli í eldri fjölbýlishúsum

Í eldri fjölbýlishúsum er oft mjög mikill skortur á afli. Það gerir það að verkum að fólk er að leita lausna og vantar aðstoð, en það skortir leiðbeiningar um hvaða skref þarf að taka til að koma upp rafbílahleðslu. Ég held að það séu flestir aðilar sem eitthvað tengjast byggingum sem hafa fengið samtöl og spurningar um það hvernig hægt er að leysa hleðslumál í fjölbýlishúsum. Húsfélög eru að glíma við þetta út um allan bæ. Stundum getum við verið með einfaldar lausnir þegar heildar aflþörfin er ekki orðin mikil. Það er þá hægt að setja upp hleðslustöðvar sem tala saman við miðlægt kerfi. Þá er mjög mikilvægt að hugsað sé um heildar lausn þannig að hver og einn bíleigandi sé ekki að kaupa sína sjálfstæðu stöð.

,,Ef stöðvarnar tala ekki saman þá er mjög erfitt að stýra aflinu til bíla sem gerir það að verkum að meiri hætta er á útslætti í kerfinu eða kannski bara einn bíll sem fær allan strauminn og annar ekki. Það þarf því að vera samræmd nálgun í fjölbýlishúsum varðandi lausnir. Síðan getur það komið upp að fjöldi rafbíla er orðinn það mikill að rafmagnsinntakið dugi ekki til og að dreifing gerir það bara að verkum að allir fái bara mjög lítinn straum. Þá gæti þurft að ráðast í að fá nýtt inntak í húsið og það getur verið mikill kostnaður í því fólginn. Þessi startkostnaður getur hlaupið á mörgum milljónum og það getur verið erfitt fyrir t.d. húsfélög að fjármagna slíkt. Þar sem rafbílahleðsla og rafbílavæðing er komin lengra eins og í Noregi og Svíþjóð eru veittir styrkir til þess að koma upp hleðslustöðvum í eldri húsum. Það er eitthvað sem væri mjög æskilegt að koma upp hér á landi til þess að tryggja orkuskipti í samgöngum,“ segir Böðvar.

Rétt hönnun sparar milljónir

Böðvar segir ennfremur varðandi nýbyggingar að tiltölulega auðvelt að hanna nýbyggingar þannig að úr þessu sé bætt. Tryggja þarf lágmarkshleðslu í byrjun fyrir eitthvað ákveðið hlutfall af bílum og gera ráð fyrir því að hægt sé að fjölga því með tímanum. Þetta þýðir í raun og veru bara aðeins stærra inntak inn í húsið og gera ráð fyrir rafmagnstöflu sem hægt er að stækka auðveldlega þegar notkun eykst. Auk þess þarf að huga að lagnaleiðum að bílastæðum og fyrirkomulagi innanhúss. Þessar viðbótar ráðstafanir gera bara kröfu um aðeins meiri langtímahugsun varðandi framtíða notkun byggingarinnar.

 „Ef byggingar eru hannaðar með þessum hætti er það bara brot af því sem það kostar að breyta eftir á. Þannig að það þarf í raun bara smá hugafarsbreytingu og mögulega smá stuðning í byggingareglugerð og leiðbeiningum til þess að tryggja að við séum að hanna byggingar með réttum hætti,“ segir Böðvar.

Framtíðin er rafvædd

Böðvar segir spennandi hluti að gerast í rafbílavæðingunni og margir framleiðendur að koma með rafbíla á mjög viðráðanlegu verði sem hafa mjög góða raun-drægi, um 250-300 km. Þá erum við komnir á þann stað þar sem við þurfum í raun og veru ekki stærri rafhlöður fyrir alla almenna notkun. Það þýðir samt að við þurfum að hlaða einu sinni á leiðinni til Akureyrar eða eitthvað slíkt, en slíkt mun ekki taka langan tíma með nýjustu hraðhleðslustöðvunum.

Það borgar sig varla að kaupa mikið stærri rafhlöður vegna þess að í þau fáu skipti sem við þurfum að ferðast svona langt þá er miklu hagkvæmara að samfélagið komi sér upp öflugu neti hraðhleðslustöðva sem dugar þá fyrir þessi einstöku skipti.

 „Nú geta langflestir farið að velja sér rafbíl og ég finn fyrir mikilli hugarfarsbreytingu hvað það varðar. Hraðhleðslustöðvar verða öflugri með tímanum þannig að við getum alltaf hlaðið hraðar svo við getum ekki annað sagt en áhugaverðir tíma séu fram undan. Það er alveg ljóst hvert við erum að stefna með samgöngur, þær verða rafvæddar, en spurningin aðeins hversu fljótt okkur tekst að koma þessum orkuskiptum á. Við þurfum hugsa til umhverfismála og þeirra skuldbindinga sem við höfum undirgengist  varðandi mengun og minnkun á losun á kolefni, ein einnig þjóðhagslegum sparnaði. Rafbílar eru yfirleitt miklu þægilegri að keyra en eldri tækni og rekstrarkostnaður mun lægri. Ég hef ekki hitt neinn sem hefur keypt sér rafbíl, sem hefur áhuga á að fara til baka í gamla tímann og fá sér bíl með pústkerfi, gírskiptingu og tímareim. Það verður úrelt með tímanum og ég held að fólk sem er núna að kaupa nýjan bíl ætti alvarlega að hugsa um að fá sér rafbíl,“ segir Böðvar Tómasson í spjallinu við FÍB-blaðið.