Afslættir á afslætti ofan hjá GM og Ford
21.11.2005
Chrysler Seebring 2005.
GM og Ford í Bandaríkjunum hafa ofan á afslætti sumarsins og haustsins stórlækkað verð á bílum sínum nú til að freista þess að losna við sem mest af óseldum bílum af árgerðum þessa árs. Og nú í dag, mánudag, kom Chrysler inn í þetta kapphlaup með því að bjóða væntanlegum kaupendum frítt bensín í tvö ár, fría þjónustu við bílinn í tvö ár og fimm ára ábyrgð gagnvart hugsanlegum göllum.
Það var á haustmánuðum sem General Motors hóf að bjóða góða afslætti á nýjum bílum til að reyna að grynna aðeins á öllum óseldu bílunum sem stóðu á geymslusvæðum verksmiðjanna. Salan fjörgaðist lítillega við þetta en datt síðan niður aftur í október þegar eldsneytisverðið náði hámarki. Þá urðu eldsnetisfrekari bílgerðirnar nánast óseljanlegar.
Í byrjun þessa mánaðar reið GM enn á vaðið og lækkaði verulega verð, mest þó á verstu eldsneytishákunum. Á þeim lækkaði verðið um meir en 30%. Lækkunin náði ekki einungis til bíla af 2005 árgerðinni heldur líka af nýbyggðum bílum af 2006 árgerð. Ford fetaði svo sömu slóðina um miðjan mánuðinn og nú í dag er sem sagt röðin komin að Chrysler.
Chrysler velur þó aðra leið en GM og Ford, sem sé þá að lækka verðið og bjóða alls kyns afslætti og búnaðarpakka, heldur fer fram undir kjörorðunum „áhyggjulaus bílakaup.“ Í þeirra tilboðum er áherslan á ókeypis bensín í tvö ár, ókeypis þjónustu við bílinn í tvö ár og fimm ára eða 100 þúsund kílómetra ábyrgð.
Tilboðið nær þó ekki til allra bandarískra Chrysler bíla því að undanþegnir þessum tilboðum eru vinsælustu tryllitækin, þ.e.a.s. Viper, Chrysler 300, Dodge Charger, Magnum og Sprinter ásamt öllum SRT8-sportgerðunum. Hvort þetta tilboð muni einnig ná til Evrópu er ekki vitað á þessari stundu.