Arctic Trucks flutt á Kletthálsinn
21.11.2005
Tveir eigenda Arctic Trucks, þeir Skúli K. Skúlason framkvæmdastjóri og Emil Grímsson stjórnarformaður.
Fyrirtækið Arctic Trucks kynnti um nýliðna helgi nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins að Kletthálsi 3 í Reykjavík.
Segja má að höfuðstöðvarnar séu jeppamiðstöð því að þar eru til sölu alls kyns jeppavörur eins og dekk og felgur, fylgi- og aukahlutir, mjög fullkomið breytinga- og viðgerðaverkstæði, skoðunarstöð og sérhæft dekkjaverkstæði fyrir jeppa. Þá er þar sýningarsalur með breytta jeppa og aðstaða til kennslu og námskeiðahalds o. fl.
Arctic Trucks starfrækir einnig jeppaskóla. Þar fer fram fræðsla um flest sem viðkemur notkun jeppans, um hvernig fjórhjóladrif virkar, um notkun jeppans við ýmsar aðstæður, jeppann sem bjargvætti - jeppaleiðir og fleira skemmtilegt sem gerir fólki kleift að njóta jeppans út í hörgul.
Arctic Trucks var upphaflega dótturfyrirtæki Toyota á Íslandi, P. Samúelssonar hf. Núverandi eigendur Arctic Trucks eru Emil Grímsson, sem jafnframt er stjórnarformaður, Loftur Ágústsson markaðsstjóri, Skúli K. Skúlason framkvæmdastjóri og Örn Thomsen framkvæmdastjóri Arctic Trucks í Noregi.