Bílaprófunarflug til Lapplands
06.12.2005
Í gær hóf SAS að fljúga áætlunarfug milli Kaupmannahafnar og smábæjarins Arvidsjaur í sænska Lapplandi. Flogið er tvisvar í viku fram til 25 mars til Arvidsjaur og til baka á 150 farþega þotu af gerðinni MD80. Flugið tengist umfangsmiklum reynsluakstri Mercedes Benz, BMW og Opel þarna norðurfrá þar sem bílaframleiðendurnir reyna nýjar bílagerðir í vetrarríki Lapplands.
Lesendur evrópskra bílatímarita myndu efalítið þekkja aftur reynsluakstursbrautirnar ýmislegt ef þeir tækju sér far með SAS vélinni til Arvidsjaur því að ljósmyndarar tímaritanna hafa um margra ára bil laumast til að mynda nýjar gerðir bíla þarna norðurfrá, þar sem verið er að reynsluaka og þrautprófa bílana áður en þeir eru settir á markað.
Í tímariti sem dönsk ferðaþjónustusamtök gefa út segir að SAS hafi ákveðið að opna þessa nýju flugleið eftir viðræður við fulltrúa bílaframleiðslufyrirtækjanna þriggja. Fyrirtækin spari mikið við að þurfa ekki lengur að leigja flugvélar til að koma mannskap sínum fram og til baka. Til viðbótar vonist SAS til að geta selt flugsæti til skíðafólks og útivistarfólks.