Dælubyssan gleymist í stútnum
Þeim fjölgar stöðugt sem gleyma að taka eldsneytisbyssuna úr áfyllingarstútnum á bílum sínum eftir áfyllingu og keyra bara af stað og annaðhvort slitnar áfyllingarslangan eða byssan losnar úr stútnum með átökum og látum og meðfylgjandi skemmdum á bæði bíl og eldsneytisdælu.
Tilfellum af þessu tagi hefur mjög fjölgað eftir að sjálfsafgreiðsla færðist mjög í aukana og eldsneytissjálfsölum fjölgaði. Yfirleitt gerast þessi óhöpp þannig að fólk virkjar dæluna með því að setja greiðslukortið í sjálfsalann, setur svo byssuna í áfyllingarstútinn, byrjar að dæla og festir gikkinn á byssunni, verður síðan annars hugar, fitlar við farsíma sína, röltir um, bregður sér jafnvel á snyrtinguna, kemur svo til baka og steingleymir að fjarlægja byssuna og keyrir bara af stað. Nú telja menn hjá dönskum olíufélögum nóg komið af svo góðu og hafa gripið til aðgerða:
Danska Shell olíufélagið hefur komið upp skiltum á eldsnetyisstöðvum sínum með áminningum til ökumanna um að fara ekki frá bílnum meðan dælt er. Til að tryggja það betur hefur búnaður sem festir byssugikkinn verið fjarlægður af dælum Shell og nokkurra annarra olíufélaga til að auka líkurnar á því að fólk haldi sjálft um gikkinn þann tíma sem tekur að fylla á geyminn.