Eigendur VW bíla skaðlausir
Í tilkynningu sem Hekla, innflytjandi og þjónustuaðili Volkswagen sendi fá sér í gær kemur fram að 432 VW og Skodabílar séu skráðir hér á landi á grunni of lágra eyðslu og CO2 útblástursgilda. Þessi gildi hafa áhrif á vörugjöld sem leggjast á bílana og á bifreiðagjöld af þeim. Hekla lýsir því yfir í tilkynningunni að komi til þess að þessi gjöld á bílana verði endurreiknuð og vörugjöld og bifreiðagjöld hækki, muni Volkswagen Group í gegn um Heklu greiða þá reikninga, ekki eigendur bílanna.
Friðbert Friðbertsson forstjóri Heklu staðfesti þetta í samtali við FÍB í gær. Hann sagði að Hekla myndi kappkosta að eigendur bílanna biðu engan skaða vegna þeirra vandamála sem uppi væru hjá framleiðandanum um þessar mundir. Þeim væri velkomið að setja sig í samband við Heklu um frekari upplýsingar, skýringar og fyrirgreiðslu. Tilkynningin frá Heklu í gær er svohljóðandi í heild sinni:
„Síðustu vikur hefur Volkswagen Group rannsakað ítarlega atvik sem komu upp í tengslum við ákveðnar tegundir bílvéla sem framleiddar eru undir þeirra merkjum, þar sem misræmi kom í ljós á skráðum og mældum NOx útblæstri (köfnunarefnismónoxíð og köfnunarefnisdíoxíð) í tilteknum dísilvélum.
Á Íslandi hefur þetta ekki nein áhrif á innflutningsgjöld og virðisaukaskatt þar sem opinber gjöld reiknast ekki út frá NOx gildum.“
Misræmi!
„Í tengslum við ítarlega rannsókn Volkswagen Group kom hins vegar í ljós að misræmi er í um 800.000 bifreiðum til viðbótar en nú í tengslum við C02 (koltvísýringur) útblástur. Listi yfir þær tegundir sem um ræðir hjá Skoda og Volkswagen barst HEKLU um helgina og er greiningarvinna í tengslum við það þegar hafin. Ljóst er að 432 bifreiðar sem fluttar hafa verið hingað til landsins falla undir þetta mál og mun það hafa áhrif á útreikninga opinberra gjalda hér á landi. Volkswagen Group hefur lýst yfir að allur kostnaður sem af þessu hlýst verði greiddur af þeim.
Ekki er þörf á neinum viðgerðum eða breytingum og er rétt að ítreka að allar bifreiðar sem þetta snertir eru fullkomlega öruggar til aksturs. Málið varðar eingöngu misræmi í uppgefnum tölum og mælingum á útblæstri.
HEKLA hefur þegar upplýst íslensk yfirvöld um þessa stöðu mála.