Ferrari skemmtigarður í Abu Dhabi
02.12.2005
Ferrari Enzo.
Ferrari í Modena á N-Ítalíu er heimsþekkt fyrir kappaksturs- og sportbíla sína. Dugnaður og færni Ferrarimanna við að búa til bíla er auðvitað alþekkt, en ekki eru þeir síðri markaðsmenn því að fá fyrirtæki eru iðnari við að selja afnot af vörumerki sínu á allskonar varning og fyrirbæri en einmitt Ferrari. Hægt er að kaupa rándýr Ferrari sólgleraugu, Ferrari-ferðatölvur, Ferrari-ilmvötn og Ferrari-hvaðeina.
Nú eru Ferrari að seilast inn á nýtt svið í þessari útleigu á vörumerki sínu því að til stendur að reisa Ferrari skemmtigarð í olíufurstadæminu Abu Dhabi. Undirritaður hefur verið samningur milli byggingafélags í Miðausturlöndum sem heitir ALDAR Properties um að byggja upp skemmtigarð þar sem m.a. verður kappakstursbraut og æfingaaksturssvæði, skemmtitæki og sérstakt Ferrari-sögu- og minjasafn, hótel, verslanir og veitingahús. Áætluð opnun skemmtigarsins er áætluð um mitt ár 2008.