General Motors rekur 30 þúsund manns

The image “http://www.fib.is/myndir/GM_logo_1.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
General Motors lýsti því yfir í gær að 30 þúsund manns yrði sagt upp störfum og lagðar yrðu niður 12 bílaverksmiðjur GM í Bandaríkjunum og Kanada. Þetta væri liður í því að mæta harðnandi samkeppni á heimamarkaðinum, einkum frá Toyota. Þær aðgerðir sem boðaðar eru nú eru hörðustu sparnaðaraðgerðir sem gripið er til hjá GM síðan í desember 1991. Þá hófust uppsagnir 74 þúsund manns og 21 verksmiðja var lögð niður.
Uppsagnirnar nú eru liður í sparnaðaráætlun sem á að draga saman útgjöld GM sjö milljarða dollara fyrir árslok 2006.  Það er einum milljarði meiri sparnaður en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Í tilkynningu frá GM í gær var sagt að endurskipuleggja ætti fyrirtækið og alla framleiðsluna en það var ekki nánar útskýrt.
Ljóst hefur verið lengi að rekstur GM er mjög erfiður. Orðrómur hefur verið á kreiki um að þetta risafyrirtæki sé í þann mund að verða gjaldþrota. Forstjórinn, Rick Wagoner, greip til þess óvenjulega úrræðis í síðustu viku að senda starfsmönnum sínum bréf. Í bréfinu neitar hann því að svo illa sé komið fyrir GM að það sé á barmi gjaldþrots. Hann sagðist við fréttamenn í gær þó ekki vilja ræða afkomu þessa árs sem senn er á enda. En horfurnar eru sannarlega ekki bjartar. Gengi hlutabréfa í GM er í sögulegu lágmarki og fer stöðugt lækkandi. Það hefur tapað um fjórum milljörðum dollara á þessu ári og gengi hlutabréfanna lækkað um 40% og hefur ekki verið lægra í 14 ár.
Verksmiðjunum sem lokað verður nú eru í Doraville í Georgíu, Ontario í Kanada, Portland í Oregon og í Pittsburgh. Þá verður verksmiðju GM í Oklahomaborg sem framleiðir jeppa af millistærð lokað og sömuleiðis verksmiðju sem heitir Michigan Craft Center og framleiðir sport-pallbíl sem selst hefur afleitlega. Þegar er búið að stöðva framleiðslu í samsetningarverksmiðjum í Lansing í Michigan, Linden í  New Jersey og í Baltimore.
-Þetta er stórt skref sem við erum að taka, en við trúum því að það muni skila okkur fram á við,- sagði Rick Wagoner á blaðamannafundi í Detroit í gær þar sem niðurskurðurinn var  tilkynntur. Wagoner settist í forstjórastólinn árið 2000 og undir hans stjórn hefur gengi félagsins verið niður á við. Hann var spurður um hvort hann væri á förum. Hann svaraði því til að svo væri alls ekki. –Ég hef ekkert hugleitt það að víkja sæti. Ég var ekki alinn upp þannig að það sé um að gera hlaupa í felur þegar harðnar á dalnum. Við erum á vígvelli og gerum það sem gera þarf þar. Ég er sannfærður um að félagið mun rétta úr kútnum,- sagði Wagoner.
The image “http://www.fib.is/myndir/Chevroavalanche.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Chevrolet Avalanche.
The image “http://www.fib.is/myndir/Chevrolet.ssr.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Chevrolet SSR - sport-pallbíll sem lest hefur illa.