Hálshnykksvörn fyrir mótorhjólafólk

http://www.fib.is/myndir/BMWhjol.jpg


Hjá mótorhjóladeild BMW og austurríska mótorhjólafyrirtækinu KTM hefur verið unnið að sérstökum kraga til varnar hálshnykk eða hálsbroti hjá mótorhjólafólki. Hjá BMW kemur nýi kraginn á markað með vorinu. Kraginn er sagður sá fyrsti sem framleiddur er fyrir almenna mótorhjólanotendur en svipaðir kragar hafa verið notaðir af keppnisfólki í mótorsporti.

Sá sem hannað hefur þennan nýja kraga er suðurafríski læknirinn Chris Leatt en hann hefur unnið með BMW, KTM og læknum við sjúkrahús og háskóla í Þýskalandi að þróun hans undanfarin ár.

Þess er vænst að nýi kraginn muni draga umtalsvert úr hálshnykk og –brotum í alvarlegum mótorhjólaslysum. Hann er settur yfir höfuðið og stilltur að líkamsbyggingu  notandans en síðan er hjálmurinn settur á höfuðið.

Í frétt í danska blaðinu Motormagasinet er sagt að kraginn geti þótt vera hreyfihamlandi í fyrstunni en miðað við hversu mikla vörn kraginn á að gefa, sé sá ágalli vart umtalsverður.