Hjólhýsisdráttarbíll ársins í Danmörku
Kia cee´d.
Dómnefnd skipuð bílablaðamönnum og fulltrúum samtaka hjólhýsa- og tjaldbúa (Dansk Camping Union) hefur valið hlólhýsisdráttarbíl ársins í Danmörku 2008. Sá bíll sem hnossið hlaut er Kia cee’d 1,6D. Titillinn ætti að vera smá huggun fyrir Kia því að í fyrri viku varð Kia cee´d að lúta í lægra haldi fyrir Mazda2 um titilinn Bíll ársins 2008 í Danmörku. Sigur-dráttarbíllinn fékk 46 stig. Í öðru sæti varð Nissan Qashqai 1,5 dCi með 35stig, þriðji varð svo Toyota Auris 2,0 D4-D með 25 stig.
Í dómsforsendum segir að díslvélin í Kia hafi sannfærandi vinnslu á lágum snúningi og nægt afl til að auka hraðann og taka framúr á öruggan hátt. Til viðbótar séu aksturseiginleikar Kia cee´d góðir og bíllinn sé auk þess öruggur, enda hlaut hann nýlega fimm stjörnur í árekstrarprófi hjá EuroNCAP.
Kia cee´d 1,6D má draga allt að 1.400 kílóa þungt og 249 sm breitt hjólhýsi eða aftanívagn og er því góður alhliða bíll hvort heldur til hvunndagsnota eða ferðalaga segir í dómsorðinu.
Sjálf prófunin á bílunum sem til greina komu í vali á „dráttarbíl“ ársins í Danmörku fór að hluta fram á vegum úti og að hluta á lokuðu aksturssvæði. Prófunin gekk ekki andskotalaust fyrir sig því að ESC-stöðugleikakerfið í einum bílnum tók upp á því að bregðast eitthvað undarlega við, að því er segir í frétt Erhvervsbladet. Það hafði þær afleiðingar að hjólhýsið aftaní bílnum valt og gereyðilagðist.
Blaðið segir að ef sveifla kemur á hjólhýsi aftan í bíl geti ESC stöðugleikakerfið brugðist ranglega við og magnað sveiflurnar þannig að ökumaður fær ekki við neitt ráðið og stórhætta, jafnvel lífshætta getir komið upp.
Þegar óhappið varð, var verið að draga 950 kílóa þungt hjólhýsi af gerðinni Home Car upp á tæplega eina og hálfa milljón ísl. kr. að verðmæti. Dráttarbíllinn var Volvo C30 D og vegurinn var lagður grófu malbiki. Okumaðurinn tók svokallaða elgsbeygju sem er þannig að snöggbeygt er frá hindrun á veginum og síðan snöggbeygt aftur í gagnstæða átt. ESC stöðugleikakerfið greip þá inn í og magnaði sveifluna sem kom á hjólhýsið þannig að það lyfti fyrst öðru hjólinu og síðan hinu og framhorn hjólhýsisins rakst ofan í malbikið.