Loks nýtt ,,rúgbrauð“ frá Volkswagen?
Árum saman hefur Volkswagen viðrað hugmyndir um nýtt ,,rúgbrauð“ með svipmóti þess gamla með gerðarheitið T1 og síðar T2 o.s.frv. Nú er eins og nýtt rúgbrauð sé að fæðast því að á bílasýningunni í Detroit sem nú stendur sem hæst, er til sýnis frumútgáfa bíls sem á líklega að koma á markað 2020.
Þessi hugmyndarbíll sem kallast I.D. Buzz ber sterkt svipmót bæði T1 og T2 bílsins sem á sínum tíma voru báðir eins konar táknmyndir hippatímabilsins á sjöunda áratuginum, ekki síst í Bandaríkjunum. En ólíkt gömlu rúgbrauðunum sem voru með loftkældum bensínvélum í afturendanum þá verður þetta nýja með tveimur rafmótorum. Annar verður að aftan og knýr afturhjólin, en hinn fram í og knýr framhjólin. Bíllinn verður byggður á nýlega sérhönnuðum rafbílaundirvagni og er rafgeymasamstæðan innbyggð í gólfið. Hún er 111 kílóWött sem þýðir að drægi verður 435-600 kílómetrar eftir því hvort það er mælt samkvæmt evrópska NEDC staðlinum eða þeim bandaríska (NEDC talan er sú hærri). Hleðslutími tómra rafhlaða í 80% hleðslu er um hálftími í hraðhleðslu.
Rafmótorarnir framí og afturí bílnum knýja hjól bílsins þannig að hann verður raunverulega með drifi á öllum hjólum. Hvor mótor er 201 hestafl sem samanlagt skila til hjólanna um 370 hestöflum. Hann er fimm sekúndur í hundraðið og kemst á 160 km hraða.
Eins og gamla T2 rúgbrauðið geta verið sæti fyrir átta manns og farangursrýmið rúmar 660-4600 lítra eftir því hvernig sætunum er skipað í bílinn hverju sinni. Hér má sjá myndir af bílnum sem ljósmyndari BilNorge tók, sumar hverjar, í Detroit um helgina.