Mengun frá bílum hefur minnkað þrátt fyrir mikla fjölgun bíla
18.11.2005
Álbræðsla.
Á umhverfisþingi sem hófst í morgun er m.a. fjallað um markmið og leiðir til þess að draga úr mengun af völdum umferðar. Lesa má út úr skýrslu sem liggur fyrir þinginu að þrátt fyrir að bílum á hverja þúsund íbúa hafi fjölgað um tæpan helming á Íslandi undanfarin ár og umferð þeirra aukist, hafi útblástursmengun frá bílum ekki aukist heldur þvert á móti minnkað.
Eins og áður hefur komið fram hér á fréttavef FÍB er þessa þróun að rekja til þess að stórstígar framfarir hafa orðið í hönnun og smíði bíla og bílvéla undanfarin ár. Bílvélar brenna eldsneytinu sem þær ganga fyrir mun betur en þær gerðu fyrir aðeins einum til tveimur áratugum og nýta þar með eldsneytið miklu betur. Sömuleiðis hefur mengunarvarnabúnaður við bílvélar mjög batnað. Loks er það mjög mikilvægur þáttur þessa máls það að bifreiðaeldsneyti er nú miklu „hreinna“ en það var á árum áður. Sáralítið eða ekkert blý er lengur í bensíni og mun minni brennisteinn sömuleiðis. Eftir að hætt var að selja blýbensín hér á landi hefur þannig stórlega dregið úr blýmengun og mælist hún vart lengur. Stórlega hefur og dregið úr brennisteinsmengun og útblæstri natríumoxíðsambanda.
Sú mengun frá umferð sem hvað mest er gert úr í umræddri skýrslu er svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu og er hún einkum rakin til negldra vetrardekkja. Greint er frá skipan nefndar sem á að kanna hvort unnt sé að draga úr svifryksmengun í andrúmsofti og að Umhverfisstofnun vinni að rannsókn fyrir nefndina á styrk svifryks í andrúmslofti og tengslum hennar við veðurfar og umferð farartækja.
En þótt dregið hafi úr mengun frá bílum þrátt fyrir að þeim hafi fjölgað þá eru blikur á lofti því að háskaleg mengun frá stóriðju hefur aukist mikið. Svokölluð PAH efni sem eru krabbameinsvaldandi hafa aukist mikið í andrúmsloftinu. Árið 1990 bárust tæplega 90 kíló af þessum samböndum út í loftið en árið 2003 voru þau komin í tæp 200 kíló. PAH efni verða til við ál- og járnblendivinnslu.