Nýi Audi Q7 jeppinn frumsýndur í Reykjavík
21.11.2005
Þýsk söngkona tónkynnir Audi Q7 í Listasafni Reykjavíkur.
Sl. fimmudagskvöld frumsýndi Hekla hf. nýjan lúxusjeppa, Audi Q7 í Listasafni Reykjavíkurborgar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu að viðstöddu fjölmenni.
Audi Q7 var frumsýndur á svipaðan hátt í nokkrum borgum Evrópu en þessar frumsýningar eru eins konar forleikur, því að bíllinn er ekki kominn í fjöldaframleiðslu enn og öll sýningareintökin eru því handsmíðuð. Fjöldaframleiðsla hefst með vorinu og kemur þessi nýi bíll á almennan markað fyrri hluta sumars. Þegar er þó byrjað að taka við pöntunum að því er Knútur G. Hauksson forstjóri Heklu sagði í samtali við FÍB blaðið.
Knútur sagði ennfremur þegar hann afhjúpaði bílinn að hér á landi yrði Audi Q7 eingöngu boðinn í vönduðum útfærslum og byrjað yrði að afgreiða hann til kaupenda í sumarbyrjun, eða um svipað leyti eða fyrr en annarsstaðar í Evrópu.
Audi Q7 er 5,086 m að lengd, 1,983 m að breidd og hæðin er 1,737 m. Innrétting er þannig að hægt er að raða sætum upp á alls 28 mismunandi vegu og ráða því hvort bíllinn er fimm eða sjö sæta. Tvennskonar vélar verða í boði. Annars vegar sex strokka þriggja lítra dísilvél sem er 223 hö, eða 4,2 lítra V8 bensínvél sem er 350 ha. Við báðar verður sex gíra sjálf/handskipting.
Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn skoðar Audi Q7 að innanverðu.