Nýr bifreiðatöluvefur tekinn í notkun
Opnaður hefur verið nýr og betri bifreiðatöluvefur Samgöngustofu. Með nýjum vef er aðgengi að tölfræði um ökutæki á Íslandi stórbætt og framsetningin býður upp á ýmsa möguleika sem ekki voru áður til staðar. Með nýja vefnum er m.a. fjölmiðlum auðveldað aðgengi að upplýsingum vegna umfjöllunar um ökutæki á Íslandi.
Á nýjum bifreiðatöluvef er m.a. hægt að:
- Skoða upplýsingar úr ökutækjaskrá með notendavænum og skilvirkum hætti.
- Bera saman nýskráningar ökutækja eftir orkugjöfum.
- Gera samanburð á ýmiskonar tölfræði milli ára.
- Skoða bifreiðaskráningu í bæjarfélögum.
Fram kemur í tilkynningu frá Samgöngustofu að með nýja vefnum er hægt að fá svör við ýmsum áhugaverðum spurningum um ökutæki á Íslandi. Hvað eru margir rafmagnsbílar skráðir á Hvammstanga? Hvert er hlutfall skráðra metanbíla árið 2019 í samanburði við árið 2020? Hvaða bifreiðategund er vinsælust á Neskaupsstað? Hversu mörg hjólhýsi hafa verið nýskráð á árinu og hvaða tegund er vinsælust?
Vefurinn byggist á Microsoft Power BI sem er víða notað í framsetningu gagna og greiðir notendum leið að upplýsingum. Hugbúnaðarfyrirtækið St2 vann að lausninni með Samgöngustofu.
Við birtingu upplýsinga sem byggja á gögnum frá Samgöngustofu er þess óskað að heimildar sé getið.