Ónýtur bíll endurskráður
Í nýútkomnu tölublaði FÍB blaðsins er sagt frá Chevrolet Captiva bíl sem skemmdist mikið í útafakstri. Tryggingafélag leysti hann til sín og seldi síðan í útboði bílapartafyrirtæki í Reykjanesbæ til niðurrifs. Bíllinn var þá afskráður úr Bifreiðaskrá sem ónýtur.
Nokkrum vikum síðar gerist svo hið óvænta að bíllinn er endurskráður þótt það eigi ekki að vera mögulegt með bíl sem afskráður hefur verið sem ónýtur. Bíllinn er síðan seldur og hvorki lánastofnun sem veitti lán til kaupanna né kaupendurnir fékk að vita þessa forsögu bílsins enda ekkert um hana að finna Í bifreiðaskrá annað en að hann hafi verið tekinn af númerum tímabundið. Ekkert stóð þá né stendur enn um hið mikla tjón sem varð á bílnum í útafkeyrslunni, engin burðarvirkisskoðun fór fram eftir viðgerðina né heldur úttekt á henni. Ekkert stendur um þetta heldur í tjónaferilskrá bílsins.
Það var síðan við næstu eigendaskipti á þessum bíl að athugull bílasali rakst á það í bakskrám Bifreiðaskrár sem ekki eru aðgengilegar almenningi, að bíllinn hafði lent í altjóni. Bílasalinn vakti strax athygli væntanlegs kaupanda og seljenda á þessu. Í kjölfar þess fengu sneru þeir sér til Samgöngustofu og var þar afhent bréf frá þáverandi lögmanni Samgöngustofu sem sagði að svokallaður niðurrifslás sem settur hafði verið á bílinn meðan hann var í eigu tryggingafélagsins hefði verið settur á hann fyrir mannleg mistök og hefði verið afturkallaður.
Lesa má nánar um þetta athyglisverða mál í FÍB blaðinu. Dreifing á blaðinu er nú á lokastigi en félagsmenn FÍB geta nálgast blaðið í heild á lokuðu vefsvæði FÍB með því að slá inn kennitölu sína og félagsnúmer. Félagsnúmerið er að finna á framhlið félagsskírteinisins.