Ríkisstyrkur til stóriðju við Húsavík
Jarðgöng milli Húsavíkurhafnar og stóriðjusvæðisins á Bakka verða lögð fyrir fé úr vegasjóði – fé sem eyrnamerkt er þjóðvegakerfinu, viðhaldi þess og endurbótum. Um er því í raun að ræða ríkisstyrk til þessarar fyrirhuguðu stóriðju upp á rúma 3,1 milljarð króna sem er hvorki meira né minna en 3,3% af því vegafé sem til skiptanna er. Þetta má lesa úr nýlega framlögðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.
Samkvæmt núgildandi samgönguáætlun frá sl. vori á að verja 95 milljörðum til vegaframkvæmda. Samkvæmt kostnaðaráætlun sem Vegagerðin gerði fyrir tveimur árum áttu þessi veggöng að kosta 1,8 milljarða króna. Í hinu ný framlagða fjárlagafrumvarpi er áætlaður kostnaður hins vegar orðinn 1,3 milljörðum hærri.
Það er ýmislegt sérkennilegt við þessi veggöng sem íslenskum skattborgurum er ætlað að rísa undir án þess þó að séð verði að þau muni sérstaklega bæta samgöngur í landinu og almennan hreyfanleika landsbúa um eigið land. Annað við þau sem er sérkennilegt er það að þau eru ekki á forræði samgönguráðuneytis heldur atvinnuvegaráðuneytisins. Þá má á sinn hátt skoðast sem nokkurskonar opinber viðurkenning á því að framkvæmdin sé í raun og veru ríkisstyrkur til stóriðjufyrirtækis, en ekki framkvæmd sem gagnast muni samfélaginu sem heild. Um þetta segir svo í frétt á vef innanríkisráðuneytisins frá 29. maí sl:
...„Lagt er til að framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hefjist árið 2017. Rannsóknum vegna Fjarðarheiðarganga verður fram haldið. Reiknað er með fjármagni til hafnarframkvæmda ásamt veg- og jarðgangatengingum á iðnaðarsvæðinu á Bakka við Húsavík en verkefnið er vistað í samgönguáætlun þótt forræði þess sé á hendi atvinnuvegarráðuneytisins. (leturbr. SÁ) Einnig ber að geta þess að Sundabraut kemur nú aftur inn á áætlun en hugað er að fjármögnun hennar verði með þátttöku einkaaðila.“
En hvernig er þessi gangagerð tilkomin? Svarið er rakið til kröfu bæjarráðs Norðurþings um þau. (sjá frétt RÚV frá 8. ágúst 2012). Alþingi brást við kröfunni með því að samþykkja frumvarp frá þingmanni kjördæmisins, Steingrími J. Sigfússyni þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem lög. Lögin kveða á um til heimild ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi. Samkvæmt lögum þessum máttu 1,1 km veggöngin umræddu kosta allt að 1,8 milljarða. Einnig mátti samkvæmt þeim taka víkjandi lán til hafnarframkvæmda við Húsavíkurhöfn upp á allt að 819 milljónir kr. Þessi 1,8 milljarða kostnaður við göngin er nú kominn upp í 3,1 milljarð í fjárlagafrumvarpinu.