Silfurliturinn enn vinsælastur
Cadillac CTS með heimsins vinsælasta lit.
Bílalakkframleiðandinn PPG hefur birt árlegan lista sinn yfir vinsælustu bílalitina. Enn einu sinni er það silfursanseraði liturinn sem er sá vinsælasti í heiminum meðal bílkaupenda. Svarti liturinn sækir hins vegar á og eru um 18% bíla af árgerð 2007 svartir. Hann slagar þó hvergi nærri upp í silfurlitinn sem er á 31,5% 2007 bílanna.
Kannski er hluti skýringarinnar á vinsældum silfursanseraða litsins sú að hann er mjög praktískur. Óhreinindi sjást minna á honum en á t.d. svarta litnum og rauðum, bláum, hvítum og gulum bílum. Þó hefur silfurliturinn tapað lítilsháttar hlutdeild frá því í fyrra en þá voru 33% nýrra bíla með þennan lit.
Það eru ekki síst vaxandi vinsældir svarta litsins sem eru að kroppa í þann silfurgráa en í fyrra voru 15,4% nýrra bíla svartir en á þessu ári sem fyrr segir 18%. Hvítur er nú í þriðja sæti 12,5% og blár í því fjörða með 12,4%. Þá kemur rauður með 8,8% og grænn með 3,8%. Ýmsir sépantaðir litir eru á 7% bíla af 2007 árgerð og loks hafa aðrir staðallitir 5,9% hlutdeild.
Í Bandaríkjunum er silfurliturinn sá vinsælasti en þó með lægri hlutdeild en heimsmeðaltalið. 22% nýrra bíla þar eru silfurlitir, 15% eru svartir og 13% rauðir.