Umferð á höfuðborgarsvæðinu sú næst mesta frá upphafi mælinga
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í september jókst um 7,2 prósent. Það sem af er ári hefur umferðin aukist um 8,4 prósent sem er næst mesta aukning umferðar á þessu tímabili frá því þessar mælingar hófust árið 2005.
Umferð jókst talsvert í nýliðnum september, yfir þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, eða um 7,2% borið saman við sama mánuð á síðasta ári. Mest jókst umferð um mælisnið á Reykjanesbraut (sem mætti nú kalla Costco sniðið) eða um 13,1% en heldur minna um hin tvö eða um 3,2% og um 4,4%.
Nú hefur umferðin aukist um 8,4% frá áramótum borið saman við sama tímabil á síðasta ári. Þetta er næst mesta aukning miðað við árstíma frá því að þessi samantekt hófst en árið 2007 hafði umferðin aukist um 8,8% á sama tíma. En í bílum talið er þetta met miðað við árstíma því að meðalumferð á dag eftir mánuðum hefur nú aukist um 113 þúsund ökutæki frá áramótum en árið 2007 var þessi aukning um 95 þúsund ökutæki.
Umferðin í september var hefðbundin, eftir vikudögum. Mest var ekið á föstudögum og minnst á sunnudögum. Umferðin á fimmtudögum jókst mest eða um 8,8% en minnst jókst umferðin á sunnudögum eða um 6,7%.
Umferðin á bíllausa deginum 22. september var hefðbundin og 8% yfir meðaltali mánaðarins.
Nú er gert ráð fyrir að umferðin geti aukist um 8% miðað við síðasta ár. Ef þetta gengur eftir yrði það hlutfallslega næst mesta aukning frá upphafi samantektar en sú mesta í bílum talið.