Við munum borga
VW samsteypan hefur heitið því að eigendur bíla með búnaði til að fegra útblásturs- og mengunargildi við mælingu þurfi ekki að greiða hugsanlega bakreikninga frá skattayfirvöldum vegna meiri mengunar en gerðarviðurkenningartölur gefa til kynna.
Óvissa hefur verið um hvort ríki hyggist krefjast hærri mengunarskatta í kjölfar þess að að bílar hafi flokkast í lægri mengunarskattaflokka vegna rangra upplýsinga í gerðarviðurkenningarskjölum. Einstakir bifreiðaeigendaklúbbar sem og heildarsamtök þeirra; FIA, hafa lagt þunga áherslu á það að eigendur bílanna sem keyptu þá í góðri trú, yrðu ekki sendir slíkir bakreikningar.
En nú er komið í ljós að Volkswagen ætlar að greiða reikningana fari það svo að skattaálögur á bílana verði þyngdar vegna „forsendubrestsins“ sem VW svindlið fæddi af sér. Þetta hefur Reuters fréttastofan og fleiri fjölmiðlar eftir hinum nýja forstjóra VW, Matthias Müller. Forstjórinn ritaði fjármálaráðherrum Evrópusambandsríkjanna bréf sem hann sendi þeim sl. föstudag. Í því fer hann fram á það að bakreikningar vegna hækkaðra mengunarskatta á bílana verði sendir til Volkswagen en ekki til hvers og eins eiganda þeirra samtals ca. 800 þúsund bíla sem um ræðir. Að því leyti geta bíleigendurnir dregið léttar andann. En það er fleiri reikningar sem forstjórinn vill fá senda til sín sem kostað geta VW allt að tvo milljarða evra til viðbótar.
Líka fegraðar eyðslutölur
Það er nefnilega ekki ein báran stök hjá Volkswagen um þessar mundir. Það nýjasta er það að ekki bara stóðu menn í því að blekkja í mengunarmælingum heldur eru opinberar eyðslu- og CO2 útblásturstölur margra nýjustu bílanna (árg. 2016) líka of lágar. Bílaframleiðendum hefur til þessa verið treyst til þess að eyðslumæla nýja bíla sjálfir. Þær eyðslutölur sem þannig fást verða síðan skráðar í gerðarviðurkenningaplögg bílanna. Þessar eyðslu- og útblásturstölur ráða síðan mestu um það í hvaða vörugjalda- og skattaflokka bílarnir raðast og hafa þannig mjög mikil áhrif á neytendaverð þeirra.
Volkswagen viðurkenndi undir lok nýliðinnar viku að fundist hafi „óregla“ í eyðslumælingunum þegar menn voru að grafa eftir gögnum varðandi svindlhugbúnaðinn margnefnda. Reuters fréttastofan greinir frá því að verkfræðingar hjá VW hafi viðurkennt að hafa kreist fram með bellibrögðum lægri eyðslu- og CO2 útblásturstölur fyrir gerðarviðurkenningar. Bæði sé um að ræða bensín- og dísilbíla. Uppgefin ástæða fyrir þessu svindli er sögð vera ótti við að geta ekki staðið við fullyrðingu sem Martin Winterkorn fráfarandi forstjóri hafði gefið um 30 prósentum minni eyðslu og CO2 útblástur fyrir lok ársins 2015.
Meðal bíla sem þessi síðasti þáttur Volkswagenvandamálanna snertir eru allir glænýir bílar af árgerð 2016. Þeir eru að því menn telja sannast og réttast á þessari stundu og allir eru þeir í Evrópu, Ca. 282.000 eru VW, 83.000 eru Skoda, 32.000 eru Seat og tæplega 16.000 Audi.