ASÍ verðkönnun

19. október 2011 10:23
Nú þegar vetur er að ganga í garð þurfa bíleigendur sem ekki aka á heilsársdekkjum að huga að dekkjaskiptum, en frá 1. nóvember er leyfanlegt að setja nagladekkin undir. Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu fyrir nokkrar tegundir bíla hjá 37 hjólbarðaverkstæðum víðsvegar um landið sl. mánudag. KvikkFix í Kópavogi var með lægsta verðið í könnuninni á þjónustu fyrir smábíla og meðalstóra fólksbíla, en allt að 3.300 kr. verðmunur var á þeirri þjónustu á milli verkstæða eða 72%.

Mestur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti á jeppa (t.d. Mishubishi) með 18´´ áfelgum(265/60R18) sem var ódýrust á 6.913 kr. hjá Bifreiðaverkstæði SB á Ísafirði en dýrust á 12.530 kr. hjá Gúmmívinnslunni í Reykjavík, verðmunurinn var 5.617 kr. eða 81%.

Verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ: Skipting, umfelgun og jafnvægisstilling

Minnstur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti undir smábíl og minni meðalbíl á 14 og 15´´ stálfelgu (175/65R14 og 195/65R15), sem var ódýrust á 4.650 kr. hjá KvikkFix í Kópavogi, en dýrust á 6.990 kr. hjá umboðsaðila Toyota á Selfossi, verðmunurinn var 2.340 kr. eða 50%. Fyrir álfelgu af sömu stærð er þjónustan ódýrust á 4.650 kr. hjá KvikkFix og dýrust á 7.450 hjá Pústþjónustu BJB í Hafnarfirði, verðmunurinn var 2.800 kr. eða 60%.

Verð á þjónustu fyrir meðalbíl (t.d. Subaru Legacy) á 16´´ stál og álfelgum(205/55R16) var ódýrust á 4.650 kr. hjá KvikkFix í Kópavogi en dýrust á 7.980 kr. hjá Kletti í Reykjavík, verðmunurinn var 3.330 kr. eða 72%.

Skipting, umfelgun og jafnvægisstilling fyrir jeppling á 16´´ álfelgum(225/70R16) var ódýrust á 5.900 kr. hjá Toyota á Akureyri og dýrust á 9.510 kr. hjá Gúmmívinnslunni Reykjavík, verðmunurinn var 3.610 kr. eða 61%. Fyrir bíl með stálfelgu af sömu stærð var þjónustan ódýrust á 5.500 kr. hjá Dekkjalagernum Selfossi og dýrust á 8.694 kr. hjá Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur, verðmunurinn var 3.194 eða 58%.

Allt að 15% hækkun frá síðustu könnun

Sex hjólbarðaverkstæði hafa hækkað hjá sér verðið á þjónustu við dekkjaskipti á meðalbíl með 16´´ álfelgu(205/55R16) frá því í apríl. Mesta hækkunin var hjá Kvikk-þjónustunni í Hafnarfirði 15% og næst mesta hækkunin var hjá Klöpp í Reykjavík 9%. Verð þjónustunnar hefur lækkað hjá 8 þjónustuaðilum síðan í vor, mesta lækkunin var hjá Toyota Akureyri 22%, Nýbarða Garðabæ 18% og Pitstop 15%.

Dekkjahöllin, Hjólbarðaverkstæði Ísafjarðar og Hjólbarðaþjónusta Magnúsar Selfossi neituðu þátttöku í verðkönnuninni

Kannað var verð á þjónustu við dekkjaskiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu á álfelgum og stálfelgum af stærðum 14,15, 16 og

18´´ á 37 hjólbarðaverkstæðum í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og Selfossi.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð á þjónustu að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

http://fib.is/myndir/ASI-logo.jpg