Er bíllinn þinn nokkuð eineygður?

The image “http://www.fib.is/myndir/Headlights.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Svartasta skammdegið er að ganga í garð og þá er, sem aldrei fyrr nauðsynlegt að öll ljós á bifreiðum og farartækjum séu í lagi og gangandi fólk beri endurskinsmerki og geri sig þannig sýnilegt í umferðinni.
Í athugun sem systurfélag okkar, NAF í Noregi gerði á ástandi ljósa á bílum kom í ljós að um það bil einn tíundi hluti bíla var með biluð ljós, ýmist eineygðir á aðalljósum og á afturljósum, eða að önnur ljós voru ekki í því lagi sem þau eiga skilyrðislaust að vera. Án þess að FÍB hafi gert sérstaka talningu af þessu tagi þá er það augljóst þeim sem eru að staðaldri í umferðinni að ástandið er ekki skárra hér hjá okkur, jafnvel verra ef nokkuð er. Þetta er afleitt því að það er mjög mikilvægt alltaf og hvað þá í skammdeginu, að öll ljós séu í lagi og að þau séu notuð rétt.
FÍB hvetur því fólk til að gefa sér tíma til að ganga í kringum bílinn og athuga hvort öll ljós séu í lagi á bílnum og skipta út biluðum ljósaperum í aðalljósum, afturljósum, númersljósum, stefnuljósum og hemlaljósum. Ef einhver ruglingur er kominn á aðalljósin, þau lýsa of hátt eða of lágt eða of mikið út til hliða, að láta þá stilla þau.
Loks skal hvatt til þess að nota stefnuljós. Stefnuljósin eru til þess að láta aðra í umferðinni vita þegar á að beygja, skipta um akrein, eða að taka af stað úr stæði. Rétt notuð stefnuljós stuðla að því að gera umferðarflæðið léttara og auðveldara fyrir alla.