Lúxusbíllinn Phaeton veldur Volkswagen vanda

The image “http://www.fib.is/myndir/VW-Phaeton.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
VW Phaeton.
Hjá Volkswagen hefur verið ákveðið að taka lúxusvagninn Volkswagen Phaeton af markaði í Bandaríkjunum frá og með áramótum. Sala á bílnum hefur valdið miklum vonbrigðum og eftirspurn verið miklu minni en ætlað var og tap af framleiðslunni verulegt.
Phaeton hefur verið byggður í nýrri og sérlega glæsilegri verksmiðju VW í Dresden í Þýskalandi þar sem verkamennirnir standa á parketgólfi hvítklæddir við að setja bílana saman. Nú er verið að endurskipuleggja bílaframleiðslu með það fyrir augum að leggja eflda áherslu á aðrar gerðir fyrir Bandaríkjamarkaðinn, einkanlega Passat, Jetta og
ný-bjölluna.
VW hefur átt nokkuð erfitt uppdráttar í Bandaríkjunum á árinu og tapaði þar rúmum milljarði dollara fyrstu tíu mánuði þess. Hans-Gerd Bode, talsmaður VW segir við Bloomberg fréttastofuna að salan í Bandaríkjunum hafi ekki gengið sem skyldi og því verði fyrirtækið að endurskoða áætlanir sínar algerlega. Reiknað hafði verið með að selja 10 þúsund Phaeton bíla í Bandaríkjunum á tímabilinu 2001-2004. Það hafi ekki gengið eftir og á þessu ári hafi botninn svo algerlega dottið úr sölunni. Til marks um það seldust einungis 686 Phaeton bílar í Bandaríkjunum fyrstu tíu mánuði ársins.